Hoppa yfir valmynd
2. júlí 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ársfundi OSPAR samningsins lauk í dag

Í dag lauk ársfundi Samningsins um vernd Norðaustur-Atlantshafsins, hins svokallaða OSPAR-samnings, sem haldinn var í Reykjavík dagana 28. júní til 2. júlí.

Markmið samningsins er að koma í veg fyrir mengun Norðaustur-Atlantshafsins með því að draga úr mengun frá landi, mengun af völdum úrgangs frá skipum og öðrum uppsprettum í hafi. Auk þess tekur hann á mati á ástandi hafsins og verndun og varðveislu vistkerfa og líffræðilegrar fjölbreytni hafsvæðisins.

Á fundinum var fjallað um mengandi efni, en innan OSPAR er unnið að því að skilgreina efni sem geta verið skaðleg lífríki hafsins og því nauðsynlegt að stemma stigu við losun þeirra. Um 80% mengunar í hafinu kemur frá landi. Mengun hafsins getur haft víðtæk áhrif. Breyting á efnasamsetningu og lífríki hafsins hefur ekki bara áhrif á veiðar og afkomu fólks, heldur einnig á loftslag og veðurfar.

Á fundinum var einnig fjallað um áhrif veiðarfæra á lífríki botnsins. Einkum er horft til þess að veiðar með botnvörpu geta haft mjög skaðleg áhrif þar sem viðkvæmar tegundir s.s. kóralla er að finna. Hér við land verður á næstu árum lögð áhersla á að kanna áhrif botnvörpu á slíkum svæðum.

Málefni endurvinnslustöðvarinnar í Sellafield var einnig til umræðu, en markviss vinna innan OSPAR á sinn þátt í þeim árangri sem náðst hefur við að draga úr losun á geislavirkum efnum frá Sellafield.

Fundinn sóttu fulltrúar aðildarríkja samningsins, alþjóðastofnana og frjálsra félagasamtaka, alls um 90 manns frá mörgum ríkjum Evrópu.

Fréttatilkynning nr. 28/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta