Þingvellir á heimsminjaskrá
Á fundi heimsminjanefndar Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), sem haldinn er í Suzhou í Kína, var í dag, föstudag 2. júlí 2004, einróma samþykkt að taka Þingvelli á heimsminjaskrá.
Á fundi heimsminjanefndar Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO), sem haldinn er í Suzhou í Kína, var í dag, föstudag 2. júlí 2004, einróma samþykkt að taka Þingvelli á heimsminjaskrá.
Á heimsminjaskrá UNESCO eru þeir staðir í heiminum sem taldir eru hafa sérstakt gildi á heimsvísu í menningarlegu eða náttúrulegu tilliti. Um 760 staðir um allan heim eru nú á skránni.
Nánari upplýsingar um heimsminjaskrá UNESCO og þá staði sem nú voru teknir á heimsminjaskrá eru á vefslóðinni: http://whc.unesco.org/. Athygli er vakin á því að ekki er að vænta frétta af útnefningu Þingvalla á þeirri vefslóð fyrr en seint í dag eða á morgun.
Þingvallanefnd og undirbúningshópur um tilnefningu Þingvalla á heimsminjaskrá UNESCO sendi frá sér eftirfarandi fréttatilkynningu í morgun:
Fréttatilkynning
Þingvellir á heimsminjaskrá
Þingvellir voru í dag, föstudaginn 2. júlí, einróma samþykktir á heimsminjaskrá Menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO) á fundi heimsminjanefndarinnar, sem haldinn er þessa daga í Suzhou í Kína. Björn Bjarnason, formaður Þingvallanefndar, ávarpaði nefndina eftir samþykkt hennar og lýsti ánægju yfir því, að Þingvellir hefðu hlotið þennan virðulega sess og þar með einnig komið Íslandi á þessa skrá.
Með samþykktinni eru Þingvellir meðal tæplega 800 menningar -og náttúruminjastaða á heimsminjaskránni og er staðurinn þar með talinn hafa einstakt menningarlegt gildi fyrir alla heimsbyggðina.. Meðal slíkra staða eru pýramídarnir í Egyptalandi, Stonehenge í Englandi, Kínamúrinn, Taj Mahal hofið, og Galapagoseyjar. Þingvellir voru meðal 48 staða frá 33 þjóðlöndum sem voru teknir til umfjöllunar í heimsminjanefndinni . Ísland og Grænland voru að þessu sinni meðal fimm landa, sem fengu slíka viðurkenningu í fyrsta sinn.
Margrét Hallgrímsdóttir, þjóðminjavörður, er formaður nefndar, sem undirbjó umsóknina vegna Þingvalla. Er þetta langt ferli, þar sem óháðir sérfræðingar leggja mat á gildi staðarins og hvernig staðið er að verndun hans. Umsóknin um Þingvelli var lögð fram í febrúar 2003. Í framhaldi af umsókninni samþykkkti Þingvallanefnd hinn 2. júní 2004 stefnumörkun næstu 20 ára fyrir þjóðgarðinn og einnig verkefnaáætlun.
Margrét Hallgrímsdóttir sækir fundinn í Suzhou ásamt Ragnheiði H. Þórarinsdóttur, sérfræðingi í menntamálaráðuneytinu, og Sigurði K. Oddssyni, þjóðgarðsverði á Þingvöllum.
Ísland gerðist aðili að sáttmálanum um heimsminjaskrána árið 1995, en hann var samþykktur á þingi menningarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna árið 1972. Þjóðir, sem standa að sáttmálanum hafa sameinast í því verkefni að bera kennsl á og varðveita merkilegustu náttúru- og menningarminjar í heiminum fyrir komandi kynslóðir. Sáttmálinn er mjög einstakur að því leyti, að í honum eru náttúruvernd og friðun menningarminja tengd saman í einu skjali.
Til þess að fá samþykki á heimsminjaskrá þarf viðkomandi staður að hafa ótvírætt gildi fyrir heimsmenninguna.. Afmörkun hans þarf að vera skýr af hálfu viðkomandi ríkisstjórnar og full sátt þarf að ríkja um verndun, umsjón og rekstrarfyrirkomulag. Staðir á heimsminjaskránni draga gjarnan að aukinn fjölda ferðamanna.. Heimsminjaskráin er talin vera afar öflugt tæki til minja- og náttúruverndar ekki síður en til að þróa vandaða ferðaþjónustu í hverju landi.
Í þjóðarvitund Íslendinga hafa Þingvellir skýra stöðu en með samþykkt Þingvalla á heimsminjaskrá öðlast staðurinn verðskuldaða alþjóðlega viðurkenningu sem einstakur á jörðinni. Með samþykktinni er lagður mikilvægur grunnur að menningartengdri ferðaþjónustu fyrir erlenda og innlenda ferðamenn í góðu samhengi við vandaða náttúruvernd og þjóðminjavörslu.