Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2004 Matvælaráðuneytið

Gerð vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 14/2004

Gerð Vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins

Fyrir nokkru var kynnt skýrsla nefndar um byggðaþróun Eyjafjarðarsvæðisins, en starf nefndarinnar er hluti af verkefnum innan byggðaáætlunar stjórnvalda sem nær yfir tímabilið 2002 - 2005. Í niðurstöðum skýrslunnar er lagt til að gerður verði svokallaður vaxtarsamningur frá 2004 til 2007 sem byggist á nýjum aðferðum við að styrkja hagvöxt einstakra svæða með uppbyggingu klasa. Lögð er m.a. áhersla á klasa á sviði mennta og rannsókna, á heilsusviði, ferðaþjónustu og á sviði matvæla.

Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis, m.a í Finnlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna. Segja má að um algjöra nýjung sé að ræða hér á landi á sviði byggðamála - þar sem kjarni aðferðarinnar felst í að styrkja sjálfbæran hagvöxt viðkomandi svæðis - með markaðstengdum áherslum. Nálæg svæði utan Eyjafjarðarsvæðisins munu einnig njóta þess starfs með beinum og óbeinum hætti.

Í framhaldi af tillögum skýrslunnar hefur verið unnið að undirbúningi Vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins 2004 - 2007, í nánu samráði við aðila á Eyjafjarðarsvæðinu.

Heildarfjármagn til reksturs samningsins þessi tæp 4 ár er áætlað 177,5 millj. kr. - þar af komi um helmingur frá sveitarfélögum á svæðinu, einkaaðilum og stofnunum - og um helmingur frá stjórnvöldum, þ.e. byggðaáætlun í umsjón iðnaðarráðuneytis.

Þannig leggur iðnaðarráðuneytið fyrir hönd stjórnvalda til 90 millj. kr. þar sem byggt er á fjárheimildum innan ramma byggðaáætlunar sem þegar eru fyrir hendi fyrir árin 2004-5 og væntanlegri byggðaáætlun fyrir árin 2006-7, með fyrirvara um samþykki Alþingis. Mótframlag að upphæð 87,5 millj. kr. verður fjármagnað af öðrum aðilum samningsins þ.e. Akureyrarbæ, Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar fyrir hönd sveitarfélaga í Eyjafirði, Byggðastofnun, Háskólanum á Akureyri, Iðntæknistofnun Íslands, Kaupfélagi Eyfirðinga, Skrifstofu atvinnulífsins á Norðurlandi og Útflutningsráði Íslands. Framlag stofnana verður að mestu í formi sérfræðivinnu. Auk þessara aðila eru stéttarfélög á Eyjafjarðarsvæðinu einnig aðilar að væntanlegum samningi.

Skrifað verður undir samninginn 5. júlí að Hótel KEA, Akureyri. kl. 10:00. Fjölmiðlum er boðið að vera viðstaddir.

Reykjavík, 2. júlí 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum