Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Úttekt á framkvæmd Stóru upplestrarkeppninnar

Í febrúar sl. fól menntamálaráðuneytið skólaþróunardeild Háskólans á Akureyri að leggja mat á hvort framkvæmd Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk í grunnskólum væri samkvæmt yfirlýstum markmiðum hennar.

Í febrúar sl. fól menntamálaráðuneytið skólaþróunardeild Háskólans á Akureyri að leggja mat á hvort framkvæmd Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk í grunnskólum væri samkvæmt yfirlýstum markmiðum hennar og jafnframt átti að athuga hvort hægt væri að greina hugsanleg fylgiáhrif keppninnar og ef svo hvers konar áhrif það væru.

Stóra upplestrarkeppnin í 7. bekk hóf göngu sína 1996 í Hafnarfirði og nú nær keppnin orðið til alls landsins og hefur náð að festast mjög í sessi í skólunum, m.a. vegna dugmikilla frumkvöðla í undirbúningsnefnd. Menntamálaráðuneytið gerðist formlegur styrktaraðili Stóru upplestrarkeppninnar í 7. bekk haustið 2000.

Markmið Stóru upplestrarkeppninnar er að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri og framburði og falla þessi markmið að þrepamarkmiðum í 5. til 7. bekk í grunnskólum, sbr. íslenskuhluta Aðalnámskrár grunnskóla frá 1999.

Upplýsinga um framkvæmd og viðhorf til keppninnar var aflað með spurningalistum og viðtölum og skoðuð voru gögn sem fyrir lágu um keppnina frá ýmsum aðilum frá árinu 1997 til ársins 2004. Spurningalisti var sendur til allra grunnskóla sem höfðu starfandi 7. bekk veturinn 2003-2004 en þeir voru alls 168. Svarhlutfall var 60% en 101 skóli sendi inn svör við könnuninni. Af þeim höfðu 95 skólar tekið þátt í Stóru upplestarkeppninni skólaárið 2003-2004.

Símaviðtöl voru tekin við kennara og foreldra, og rætt var við nemendur og fulltrúa á skólaskrifstofum. Að lokum voru tekin ítarleg viðtöl við forystumenn Stóru upplestrarkeppninnar, þau Baldur Sigurðsson, dósent við KHÍ og annan upphafsmann keppninnar, og Ingibjörgu Einarsdóttur, kennsluráðgjafa við Skólaskrifstofu Hafnarfjarðar og fyrrum formann Samtaka móðurmálskennara.

Helstu niðurstöður matsins eru að meginmarkmið Stóru upplestrarkeppninnar um að vekja athygli og áhuga í skólum á vönduðum upplestri hafi náðst. Hægt er að greina mikinn áhuga kennara enda víðtæk þátttaka skólanna í keppninni. Það liggja fyrir gögn um að verkefnið sé til þess fallið að efla sjálfstraust nemenda við að flytja mál sitt fyrir framan hóp manna. Erfitt er að draga þær ályktanir að verkefnið eitt og sér efli lestur, bæti lesskilning eða auki almennan lestur nemenda. Kennarar telja reyndar í spurningalistakönnuninni að lestur aukist og batni en viðtöl við nemendur og kennara endurspegla ekki svörin í könnuninni. Einn af veikleikum Stóru upplestrarkeppninnar að mati úttektaraðila er að sterkrar tilhneigingar gætir innan skóla til að líta á Stóru upplestrarkeppnina sem sjálfstætt verkefni án sérstakra tengsla við annað sem er að gerast í skólum.

Menntamálaráðuneytið telur Stóru upplestrarkeppnina vera gott dæmi um vel heppnað frumkvöðla- og þróunarstarf í grunnskólum og fulla ástæðu til að halda áfram að þróa keppnina enn frekar. Úttektarskýrslan, Stóra upplestrarkeppnin, er aðgengileg á vefsíðu menntamálaráðuneytisins: www.menntamalaraduneyti.is



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum