Hoppa yfir valmynd
9. júlí 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Auglýst eftir rekstraraðila fyrir Íslenskuskólann

Auglýst er eftir áhugasömum aðila til að sjá um rekstur Íslenskuskóla á Netinu fyrir börn búsett í útlöndum.

Auglýst er eftir áhugasömum aðila til að sjá um rekstur Íslenskuskóla á Netinu fyrir börn búsett í útlöndum.

Um er að ræða skóla sem hefur verið styrktur af menntamála- og utanríkisráðuneyti en rekinn af Símenntunarstofnun Kennaraháskóla Íslands á veffanginu www.islenskuskolinn.is. Um 340 nemendur voru skráðir í skólann í janúar 2004 og 200 nemendur hafa stundað fjarnám þar undir leiðsögn kennara. Markmið skólans er að veita íslenskum börnum búsettum í útlöndum aðgengi að efni til að læra og þjálfa íslenska tungu. Skólinn hefur verið starfræktur í námsumhverfi þar sem uppsetning námskeiða býður uppá möguleika á rauntímasamskiptum, spjallþráðum og póstlistum. Hægt hefur verið að stunda nám undir leiðsögn kennara eða með sjálfsnámi.

Samkvæmt mannfjöldaskrá Hagstofu Íslands, febrúar 2003, er heildarfjöldi íslenskra barna sem búsett eru erlendis á aldrinum 0 – 16 ára 7.337. Af þeim fjölda eru 5.369 börn á grunnskólaaldri (5 – 16 ára).

Auglýst er eftir aðila til að taka við rekstri skólans. Gert er ráð fyrir að rekstraraðilar fjármagni reksturinn að meginstofni fyrir sjálfsaflafé. Mikilvægt er að skapaðar verði rekstrarlegar forsendur fyrir Íslenskuskólann og gert ráð fyrir að rekstraraðilar móti viðskiptalíkan.

Upplýsingar um skólann er að finna í greinargerð sem hægt er að nálgast með notendanafninu og lykilorðinu: gestur á www.islenskuskolinn.is. Nánari upplýsingar eru veittar hjá Símenntunarstofnun KHÍ.

Umsóknir skulu sendar menntamálaráðuneytinu Sölvhólsgötu 4, 150 Reykjavík, eigi síðar en 20. ágúst 2004. Umsóknum skal fylgja greinargerð umsækjanda um hvernig hann hyggst standa að verkefninu, bæði faglega og rekstrarlega. Þeir aðilar sem á grundvelli innsendra greinargerða teljast að mati ráðuneytisins líklegastir til að ná árangri í rekstri skólans verða valdir til að útfæra hugmyndir sínar nánar.

Menntamálaráðuneytið, 9. júlí 2004



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta