Undirritun stjórnmálasambands
Miðvikudaginn 7. júlí sl. var undirrituð í New York yfirlýsing um stofnun stjórnmálasambands milli Íslands og Belís. Fastafulltrúar ríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Stuart W. Leslie undirrituðu yfirlýsinguna.
Belís er fámennasta ríkið í Mið-Ameríku með um 250 þúsund íbúa, en annar eins fjöldi ríkisborgara landsins býr erlendis, einkum í Bandaríkjunum. Það var áður bresk nýlenda og hét þá Breska Hondúras. Landið öðlaðist sjálfstæði árið 1981 og varð á sama ári aðili að Sameinuðu þjóðunum. Höfuðborg Belís er Belmopan.
Belís er innan við einn tíundi af stærð Íslands að flatarmáli. Landamæri þess liggja að Mexíkó og Gvatemala og það hefur langa strandlengju að Karabíska hafinu. Landbúnaður er helsta atvinnugreinin, aðallega sykur- og bananarækt, og landið er fátækt þróunarríki. Ferðaþjónusta og útflutningur á sjávarafurðum eru helstu gjaldeyrislindirnar. Fiskimið við Belís eru mjög auðug og landið á samleið með Íslandi í málefnum hafsins.
Belís á aðild að samtökum fimmtán ríkja í Karabíska hafinu (CARICOM). CARICOM hefur sett á laggirnar sérstaka skrifstofu til að framkvæma rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar á svæðinu og er skrifstofan staðsett í Belís. Þá er einnig staðsett í Belís svæðisskrifstofa fiskveiðistjórnunar í Karabíska hafinu, sem hefur það hlutverk að stuðla að sjálfbærum fiskveiðum þar.