Skipun nefndar um Evrópumál
Forsætisráðherra hefur skipað nefnd um Evrópumál. Helstu hlutverk nefndarinnar eru m.a. að kanna framkvæmd EES-samningsins, hvort og þá hvers konar undanþágur séu veittar í aðildarsamningum að Evrópusambandinu, hvað aðild myndi kosta ríkissjóð til lengri og skemmri tíma litið og hverjir væru kostir og gallar evrunnar fyrir Ísland. Auk þess sem skilgreind verði staða Íslands miðað við hina nýsamþykktu stjórnarskrá ESB. Þá verði á vettvangi nefndarinnar rædd þau álitaefni önnur að því er tengsl Íslands og Evrópusambandsins varða og nefndin telur til þess fallin að skýra stöðu Íslands sérstaklega í þessu samhengi.
Í nefndina voru skipaðir Björn Bjarnason dóms- og kirkjumálaráðherra, sem jafnframt er formaður, samkvæmt tilnefningu Sjálfstæðisflokksins, Einar K. Guðfinnsson alþingismaður, samkvæmt tilnefningu Sjálfstæðisflokksins, alþingismennirnir Hjálmar Árnason og Jónína Bjartmarz samkvæmt tilnefningu Framsóknarflokksins, alþingismennirnir Össur Skarphéðinsson og Bryndís Hlöðversdóttir samkvæmt tilnefningu Samfylkingarinnar, Ragnar Arnalds fv. ráðherra og Katrín Jakobsdóttir varaformaður Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs samkvæmt tilnefningu þess flokks og Brynjar Sindri Sigurðsson markaðsfræðingur samkvæmt tilnefningu Frjálslynda flokksins.
Í Reykjavík, 14. júlí 2004