Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2004 Matvælaráðuneytið

Skipun stjórnar Vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins.

Nr. 15/2004

Skipun stjórnar Vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins

 

Iðnaðar- og viðskiptaráðherra Valgerður Sverrisdóttir, hefur í dag skipað stjórn Vaxtarsamnings Eyjafjarðarsvæðisins, að fengnum tilnefningum frá aðilum samningsins. Í stjórninni eru:

Þorsteinn Gunnarsson - Háskólanum á Akureyri, formaður

Baldur Pétursson - Iðnaðarráðuneyti,

Sigríður Stefánsdóttir - Akureyrarbæ,

Guðmundur Guðmundsson - Byggðastofnun,

Valur Knútsson - Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar, fyrir hönd sveitarfélaga í Eyjafirði,

Berglind Hallgrímsdóttir - Iðntæknistofnun Íslands, Impru Nýsköpunarmiðstöð,

Benedikt Sigurðarson - Kaupfélagi Eyfirðinga, Akureyri,

Ásgeir Magnússon - Skrifstofu atvinnulífsins á Norðurlandi,

Björn Snæbjörnsson - Stéttarfélögum í Eyjafirði,

Hermann Ottósson - Útflutningsráði Íslands.

Á umliðnum mánuðum hefur farið fram vinna á vegum Verkefnisstjórnar um byggðaþróun Eyjafjarðar, þar sem fjallað hefur verið um það hvernig mætti styrkja Eyjafjarðarsvæðið sem vaxandi byggðakjarna á Norðurlandi og voru niðurstöður kynntar í apríl 2004. Þar er að finna fjölmargar tillögur, m.a. um Vaxtarsamning fyrir Eyjafjarðarsvæðið.

Tillögurnar taka mið af sambærilegum áherslum víða erlendis, m.a í Finnlandi, Ítalíu og Bandaríkjunum þar sem lögð er aukin áhersla á að efla byggðakjarna. Segja má að um algjöra nýjung sé að ræða hér á landi á sviði byggðamála - þar sem kjarni aðferðarinnar felst í að styrkja sjálfbæran hagvöxt viðkomandi svæðis - með markaðstengdum áherslum. Nálæg svæði utan Eyjafjarðarsvæðisins munu einnig njóta þess starfs með beinum og óbeinum hætti.

Í framhaldi af áðurnefndu starfi, var þann 5. júlí sl. skrifað undir Vaxtarsamning Eyjafjarðarsvæðis, þar sem ýmsir aðilar á Eyjafjarðarsvæðinu gerðust stofnaðilar að áðurnefndum samningi. Markmið Vaxtarsamnings er að efla Eyjafjarðarsvæðið sem eftirsóttan valkost til búsetu. Samningurinn er einn áfangi í uppbyggingu svæðisins, og er miðað við að árið 2020 verði íbúatala svæðisins orðin um 30.000. Kjarni aðgerða í þessa veru er að efla samkeppnishæfni atvinnulífs og svæðisins og auka sjálfbæran hagvöxt og fjölga þannig atvinnutækifærum og íbúum.

Til að ná áðurnefndum markmiðum verður eitt meginverkefni vaxtarsamnings að stuðla að uppbyggingu klasa og tengslaneta helstu aðila á viðkomandi kjarnasviðum og verkefnum er þeim tengjast. Áhersla verður lögð á mennta- og rannsóknaklasa, heilsuklasa, ferðaþjónustuklasa og matvælaklasa.

Heildarfjármagn til reksturs samningsins þessi tæp 4 ár er áætlað 177,5 millj. kr. - þar af komi um helmingur frá sveitarfélögum á svæðinu, einkaaðilum og stofnunum - og um helmingur af fjármunum sem veitt er til framkvæmda byggðaáætlunar ríkisstjórnar.

Reykjavík 16. júlí 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum