Hoppa yfir valmynd
3. ágúst 2004 Forsætisráðuneytið

Fréttir af líðan forsætisráðherra

In English

Eins og fram hefur komið lagðist Davíð Oddsson forsætisráðherra inn á Landspítala-háskólasjúkrahús að morgni 21. júlí sl. vegna gallblöðrubólgu. Við rannsókn kom jafnframt í ljós staðbundið æxli í hægra nýra hans. Nýrað með æxlinu, sem reyndist illkynja, var fjarlægt með skurðaðgerð. Við rannsóknir samfara skurðaðgerðinni staðfestist að um algjörlega staðbundið mein var að ræða, sem auðvelt reyndist að fjarlægja. Bati ráðherrans eftir þessa aðgerð hefur verið góður og eðlilegur og engin eftirköst komu í ljós eftir hana. Þar sem meinið í nýranu fannst strax við innlögn og var fjarlægt sama dag, voru frekari og ítarlegri rannsóknir framkvæmdar í framhaldi aðgerðarinnar og næstu daga á eftir. Þær rannsóknir voru mjög umfangsmiklar. Í þessum rannsóknum kom í ljós að í skjaldkirtli var illkynja mein. Í framhaldi af þeim niðurstöðum var ákveðið að fjarlægja skjaldkirtilinn og nærliggjandi eitla með skurðaðgerð. Þessi skurðaðgerð var framkvæmd í morgun á Landspítala-háskólasjúkrahúsi og tókst vel. Forsætisráðherra heilsast vel eftir aðgerðina og batahorfur eru mjög góðar að sögn lækna.

Engin tengsl eru á milli þessara tveggja meina. Ráðherrann mun dvelja nokkra daga til viðbótar á sjúkrahúsinu til að jafna sig eftir aðgerðina og verða frá störfum nokkrar næstu vikur, þar til hann hefur náð fullum bata.

Davíð Oddsson forsætisráðherra og fjölskylda hans vilja koma á framfæri einlægu þakklæti til lækna þeirra og hjúkrunarfólks og annars starfsliðs Landspítala-háskólasjúkrahúss sem annast hefur forsætisráðherra af mikilli þekkingu, fagmennsku og hlýju. Jafnframt vilja þau koma á framfæri kveðjum og þökkum til þess gríðarlega fjölda einstaklinga sem hefur sent forsætisráðherra og fjölskyldu hans fallegar kveðjur, góðar óskir og fyrirbænir. Þessar góðu kveðjur og sú mikla hlýja sem þær hafa fært með sér eru ráðherranum og fjölskyldu hans mikilvægur styrkur við þessar erfiðu aðstæður.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta