Afhending trúnaðarbréfs
Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, afhenti 5. ágúst, frú Ivy Dumont, landsstjóra Bahamaeyja, trúnaðarbréf sem sendiherra Íslands á Bahamaeyjum með aðsetur í New York.
Bahamaeyjar eru í Karíbahafi, alls 700 talsins, suðaustur af Flórída og norðaustur af Kúbu. Íbúafjöldi er hinn sami og á Íslandi, rétt innan við 300 þúsund manns, sem búa á 30 eyjum. Bahamaeyjar öðluðust sjálfstæði fyrir liðlega 30 árum en eru í konungssambandi við Bretland og eru í breska samveldinu. Elísabet Englandsdrottning er þjóðhöfðingi landsins. Æðsti stjórnandi þess er landsstjórinn, Dame Ivy Dumont.
Ísland og Bahamaeyjar hafa átt gott samstarf á alþjóðasviði, einkum hvað varðar umhverfismál og hafréttarmál. Af hálfu Bahamaeyja er áhugi á nánara samstarfi á sviði sjávarútvegsmála. Ferðaþjónusta er mikilvægasta atvinnugrein landsmanna, en alþjóðleg bankaþjónusta hefur auk þess verið mikilvæg tekjulind um langa hríð.