Sameining uppsveita Árnessýslu
Niðurstöður skoðanakönnunar, sem Skeiða- og Gnúpverjahreppur lagði fyrir kjósendur í hreppnum samhliða forsetakosningunum 26. júní síðastliðinn, gefa vísbendingar um að meiri hluti íbúa er hlynntur því að fram fari viðræður um sameiningu sveitarfélaganna fjögurra í uppsveitum Árnessýslu. Sveitarfélögin sem um ræðir eru Grímsnes- og Grafningshreppur, Bláskógabyggð, Hrunamannahreppur og Skeiða- og Gnúpverjahreppur.
Verði af sameiningu þeirra verður til um 2.500 manna dreifbýlissveitarfélag í uppsveitum Árnessýslu.
Alls tóku 166 manns þátt í könnuninni, eða 80,2% þeirra sem mættu á kjörstað.
Rúmlega helmingur þátttakenda, eða 55%, var hlynntur því að hafnar verði viðræður um sameiningu sveitarfélagsins við önnur sveitarfélög.
Í kjölfarið var afstaða þátttakenda til nokkurra sameiningakosta könnuð. Af þeim sem eru hlynntir sameiningarviðræðum, eru um 65% hlynnt eða mjög hlynnt viðræðum sveitarfélaganna í uppsveitum Árnessýslu, 40% eru hlynnt viðræðum um sameiningu allra sveitarfélaga í Árnessýslu, en 15% svarenda eru hlynnt viðræðum allra sveitarfélaga á Suðurlandi.