Hoppa yfir valmynd
10. ágúst 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Breytingar á reglugerðum um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga

Fyrri reglugerðin er reglugerð nr. 638/2004 um breytingu á reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 113/2003. Reglugerðin felur í sér tvær breytingar á gildandi framkvæmd. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að tekjujöfnunarframlag komi ekki að fullu til greiðslu í október ár hvert eins og verið hefur, heldur verði fjórðungur framlagsins greiddur út í árslok á grundvelli leiðréttrar skrár um álagðar skatttekjur sveitarfélaga. Tilgangur breytingarinnar er sá að auðvelda sjóðnum að taka tillit til leiðréttinga í álagningarskrá, sem jafnan eru allnokkrar á tímanum frá október til desember ár hvert, og gera jöfnunina þannig eins rétta og frekast er unnt. Í öðru lagi er gert ráð fyrir því að heimilt verði að greiða á árunum 2005 og 2006 framlög vegna stofnframkvæmda enda hefjist framkvæmdir fyrir árslok 2004 og fyrir liggi viðurkenning ráðgjafarnefndar sjóðsins um þörf fyrir framkvæmdina. Horfur eru á að gildandi ákvæði til bráðabirgða muni valda nokkrum vandkvæðum í framkvæmd, þar sem gert er ráð fyrir því að framlög miðist við verkstöðu í árslok 2004. Þess í stað er gert ráð fyrir að miðað verði við verkstöðu í árslok 2005 og verða síðustu framlög greidd á árinu 2006. Tilgangur breytingarinnar er að gera viðkomandi sveitarfélögum kleift að ljúka stofnframkvæmdum sem þegar eru hafnar.

Síðari reglugerðin er reglugerð nr. 637/2004 um breytingu á reglugerð um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans, nr. 303/2003, og er hún til samræmis við breytingu sem gerð var á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, með síðari breytingum, á sl. vorþingi, sbr. lög nr. 67/2004. Breytingin felur í sér að ráðstöfun hluta af lögbundnu framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til Lánasjóðs sveitarfélaga til þess að ljúka átaki til einsetningar grunnskólans í sveitarfélögum með 2.000 íbúa eða fleiri verður fram haldið einu ári lengur en áður var gert ráð fyrir. Kemur fram í lögunum að á árinu 2005 verði 200 m.kr. ráðstafað á þennan hátt og 135 m.kr. á árinu 2006. Ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs gerir tillögu til ráðherra um ráðstöfun framlaga.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum