Afhending trúnaðarbréfs
Sveinn Björnsson, sendiherra, hefur afhent Antonio Maria Costa, framkvæmdastjóra skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg (UNOV), trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg.
Starfsemi Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg lýtur sérstaklega að afbrota- og fíkniefnavörnum en á síðustu árum hefur barátta Sameinuðu þjóðanna gegn afbrotum og skipulagðri glæpastarfsemi orðið æ mikilvægari. Sérstök skrifstofa Sameinuðu þjóðanna að fíkniefna- og glæpavörnum (UNODC) er staðsett í Vínarborg.
Á vettvangi afbrotavarnanefndar Sameinuðu þjóðanna og fíkniefnanefndar Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg fer fram stefnumótandi vinna á sviði alþjóðlegra aðgerða gegn skipulagðri glæpastarfsemi og ólöglegri verslun með fíkniefni. Jafnframt vinnur skrifstofa Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg að aðgerðum til að stemma stigu við hryðjuverkastarfsemi og spillingu.