Hoppa yfir valmynd
11. ágúst 2004 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Gildistaka aðalnámskrár framhaldsskóla, brautalýsingar

Menntamálaráðuneytið vekur hér með athygli á því að menntamálaráðherra hefur staðfest endurskoðaða útgáfu af síðari hluta aðalnámskrár framhaldsskóla

Til skólameistara framhaldsskóla og formanna starfsgreinaráða.

Menntamálaráðuneytið vekur hér með athygli á því að menntamálaráðherra hefur staðfest endurskoðaða útgáfu af síðari hluta aðalnámskrár framhaldsskóla, lýsingum námsbrauta, og er hún birt í Stjórnartíðindum 10. þ.m., sjá auglýsingu nr. 661/2004 (Stj.tíðindi B 92-95). Námskráin verður eingöngu birt á vef ráðuneytisins menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/

Endurskoðuð útgáfa fyrri hluta aðalnámskrár framhaldsskóla var birt í Stjórnartíðindum 20 febr. sl., sjá auglýsingu nr. 138/2004, er einnig á vef ráðuneytisins.

Megintilgangur endurskoðunar aðalnámskrárinnar var að fella inn í textann breytingar sem gerðar hafa verið frá því að hún kom út 1999 og tilkynntar voru með auglýsingum í Stjórnartíðindum eða með dreifibréfum. Ennfremur hafa lýsingar á námsbrautum framhaldsskólans verið samræmdar eftir því sem kostur er.

Meðal þess sem er nýtt í þessari útgáfu brautalýsinga er eftirfarandi:

  • Nám í almennum bóklegum greinum í starfsnámi hefur verið samræmt. M.a. er lífsleikni nú námsgrein á öllum starfsnámsbrautum, oftast í stað samfélagsgreina.
  • Allt nám á starfsnámsbrautum er nú talið í námseiningum, jafnt vinnustaðanám sem skólanám. Umfang vinnustaðanáms er sett fram í vikum og jafngildir ein vika einni einingu.
  • Nokkrar starfsnámsbrautir birtast nú í fyrsta sinn í aðalnámskrá framhaldsskóla; þ.e. námsbrautir í húsgagnabólstrun, tannsmíði, skósmíði, mjólkuriðn, útstillingum, málmsuðu, leiðsögunámi og skipstjórn fyrir 30 rúmlesta báta.
  • Úr aðalnámskránni falla fiskiðnaðarbraut, sjávarútvegsbraut og uppeldisbraut.
  • Vakin er sérstök athygli á því að ráðherra hefur samþykkt nýja námskrá fyrir matvæla- og veitingagreinar sem birtist nú í fyrsta sinn í aðalnámskrá framhaldsskóla. Þar eru fjórar nýjar námsbrautir; kjötskurður, smurbrauð, nám fyrir aðstoðarkokka og nám fyrir aðstoðarþjóna.

Námskrár einstakra námsgreina og námssviða, ásamt áfangalýsingum, eru aðgengilegar á vef ráðuneytisins. Aðalnámskrá og greinanámskrár eru í stöðugri endurskoðun. Breytingar sem gerðar verða á aðalnámskrá eða á skipulagi og inntaki einstakra námsbrauta hér eftir verða fyrst og fremst birtar á vefsvæði ráðuneytisins. Þær munu jafnframt tilkynntar skólum og starfsgreinaráðum með dreifibréfi um leið og þær hafa verið staðfestar af ráðherra og birtar í Stjórnartíðindum.

Ráðuneytið leggur áherslu á að aðalnámskráin markar ramma um skólanámskrár og er þannig sá grundvöllur sem nám og kennsla og meðferð mála í framhaldsskólum miðast við. Eru skólameistarar og kennarar því hvattir til að kynna sér hana rækilega.

Í endurskoðaðri útgáfu aðalnámskrár framhaldsskóla 2004 felst ekki breyting á þeirri skólastefnu sem mörkuð var með námskránni frá 1999.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta