Afhending trúnaðarbréfs
Bendikt Ásgeirsson, sendiherra, afhenti í gær dr. Sam Nujoma, forseta Namibíu, trúnaðarbréf sitt sem sendiherra Íslands gagnvart Namibíu með aðsetur í Mósambík.
Hann á einnig viðræðum við fulltrúa viðskiptalífsins í Windhock og Walvis Bay og við dótturfyrirtæki Hamiðiðjunnar en það er eina íslenska fyrirtækið sem hefur starfsemi í sunnanverðri Afríku í dag. Jafnframt átti hann viðræður við fulltrúa utanríkisráðuneytis Namibíu um tvíhliða samskipti landanna og skoðaði verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í landinu.
Þróunarsamvinna Íslands og Namibíu hófst árið 1990 þegar landið fékk sjálfstæði og fyrsti rammasamningur ríkjanna var undirritaður í janúar 1991. Í upphafi var einkum lögð áhersla á verkefni í sjávarútvegsgeiranum en á seinustu árum hefur stuðningur við félagsleg verkefni farið vaxandi. Í sjávarútvegsgeiranum var fyrst stutt við uppbygginu sjávar- og fiskirannsókna með rekstri hafrannsóknaskips, þar sem m.a. íslenskir skipstjóranmenn voru um borð, og með störfum íslenskra sjávar- og fiskilíffræðinga við hafrannsóknarstofnun Namibíu í bænum Swakopmund. Smám saman tók stuðningur við sjómannafræðslu við sem helsta verkefni Þróunarsamvinnustofnunar Íslands í landinu. Íslenskir kennarar hafa starfað við uppbyggingu sjómannaskólans í Walvis Bay síðan árið 1994. Tilgangur skólans er að þjálfa Namibíumenn svo þeir verðir færir um að sinna vélstjórn og skipstjórn á sínum eigin skipum í framtíðinni. Auk þess hafa namibískir kennarar fengið þjálfun á Íslandi og víðar fyrir tilstuðlan ÞSSÍ.
Enn annað verkefni ÞSSÍ í Namibíu, sem hófst 1992, tengdist fiskimálaskrifstofu SADC, sem eru Þróunarsamtök ríkja í sunnanverðri Afríku. Eftir að skrifstofa þessi flutti frá Windhoek hefur stuðningur ÞSSÍ einkum verið fólginn í ráðgjöf við yfirstjórn fiskimála í Namibíu. Þáttur félagslegra verkefna ÞSSÍ í Namibíu hefur farið vaxandi eftir því sem á samstarfið hefur liðið. Fullorðinsfræðusluverkefni hófust í smáum stíl 1993-1994 en með ráðningu sérstaks ráðhgjafa árið 1999 hefur hluti þessa þáttar aukist. Í dag styður ÞSSÍ félagsleg verkefni í bæjunum Luderitz, Walvis Bay, Swakopmund og Usakos. Einkum hefur áhersla verið lögð á menntun kvenna og velferð barna í þeim félagslegu verkefnum sem ÞSSÍ hefur stutt. Núverandi rammasamningur um tvíhliða þróunarsamvinnu Íslands og Namibíu rennur út í árslok en endurnýjun til þriggja ára er í undirbúningi.
Samhliða þróunarsamvinnu landanna komu til töluverð viðskiptatengsl milli Íslands og Namibíu og um tíma voru starfandi þrjú sjávarútvegsfyrirtæki sem Íslendingar áttu eða voru rekin í samvinnu við namibíska aðila en nú er aðeins dótturfyrirtæki Hampiðjunnar eftir. Um skeið var stór hópur Íslendinga búsettur í Namibíu, um 120 þegar þeir voru flestir. Þeim hefur fækkað töluvert og eru nú um 30.