Hoppa yfir valmynd
12. ágúst 2004 Heilbrigðisráðuneytið

Heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi sameinast

Fréttatilkynning nr. 19/2004

Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hefur skipað Magnús Skúlason, deildarstjóra, framkvæmdastjóra Heilbrigðisstofnunar Suðurlands frá 1. september, en þá verður að veruleika sameining heilbrigðisstofnana á Suðurlandi. Hin sameinaða Heilbrigðisstofnun Suðurlands mun þjóna um 17 þúsund íbúum. Liðlega 200 manns eru starfandi á heilbrigðisstofnunum sem sameinast í eina 1. september og velta þær um 1230 milljónum króna árlegu rekstrarfé.

Fimmtán sóttu um starf framkvæmdastjóra. Þriggja manna hæfnisnefnd fór yfir og mat umsóknir um starf framkvæmdastjóra og skilaði niðurstöðu sinni til ráðherra um það hverjir væru hæfastir til að gegna starfinu. Er þetta gert á grundvelli laga um heilbrigðisþjónustu. Nefndin taldi fjóra umsækjendur hæfasta og voru þeir kallaðir til viðtals og skipaði ráðherra í stöðuna til næstu fimm ára í kjölfar þess.

Sameining heilbrigðisstofnananna á Suðurlandi tekur til heilsugæslustöðvanna í Þorlákshöfn, Hveragerði, Selfossi, Laugarási, Rangárþingi (Hvolsvelli og Hellu), Vík, og á Kirkjubæjarklaustri, auk Heilbrigðisstofnunarinnar Selfossi. Stöður framkvæmdastjóra þeirra stofnana sem nú eru starfandi verða formlega lagðar niður frá 1. desember nk. og munu því framkvæmdastjórarnir sem starfandi verða fram að þeim tíma vinna með Magnúsi Skúlasyni í þrjá mánuði. Staða annarra starfsmanna verður óbreytt en það kemur í hlut nýs framkvæmdastjóra að skipuleggja starfsemi hinnar sameinuðu stofnunar til framtíðar.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
12. ágúst 2004



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta