Stofnun stjórnmálasambands
Fastafulltrúar Íslands og Papúa Nýju Gíneu hjá Sameinuðu þjóðunum, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Robert Guba Aisi, undirrituðu í New York fimmtudaginn 12. ágúst samkomulag um stofnun stjórnmálasambands ríkjanna.
Papúa Nýja Gínea er fimm milljón manna ríki, sem liggur austan Indónesíu og býr yfir einhverri mestu menningar- og náttúrufjölbreytni, sem er að finna í heiminum. Þar eru töluð til að mynda 750 tungumál. Mikill munur er á lífskjörum og lifnaðarháttum frumbyggja og borgarbúa, skörp skil auðlegðar og fátæktar og mikill straumur fólks til þéttbýlis á þátt í hárri afbrotatíðni.
Landið býr þó yfir talsverðum auðlindum, svo sem koparnámum, gulli, gasi, olíu og miklum fiskimiðum. Nytjar þessara auðlinda í þágu samfélagsuppbyggingar hefur hins vegar gengið hægt.
Stjórnvöld í höfuðborginni Port Moresby hafa lengi haft áhuga á að taka upp stjórnmálasamband við Ísland og hafa sýnt áhuga á því að læra af Íslendingum nytjar náttúruauðlinda, einkum fiskimiða og stjórn fiskveiða. Sérstaklega hafa þau sýnt áhuga á Sjávarútvegsháskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi.