Hoppa yfir valmynd
13. ágúst 2004 Matvælaráðuneytið

Útgáfa reglugerða um stjórn fiskveiða fiskveiðiárið 2004/2005

FRÉTTATILKYNNING

Útgáfa reglugerða um stjórn fiskveiða á fiskveiðiárinu 2004/2005.

Ráðuneytið hefur í dag gefið út reglugerðir sem lúta að stjórnun fiskveiða á fiskveiðiárinu 2004/2005. Í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni á fiskveiðiárinu 2004/2005 eru tilgreindar aflaheimildir í einstökum tegundum, sem úthlutað verður á grundvelli aflahlutdeildar eða krókaaflahlutdeildar sbr. 2. gr. reglugerðarinnar. Í reglugerð um veiðar dagabáta segir að sóknardagar dagabáta verða 18 að jafnaði.

Í reglugerð um veiðar í atvinnuskyni á fiskveiðiárinu 2004/2005 kemur fram, að ráðherra hyggst ráðstafa allt að 3.200 þorskígildislestum til stuðnings byggðarlögum sem lent hafa í vanda vegna samdráttar í sjávarútvegi eða skerðingar á heildaraflaheimildum. Verða reglur þessar kynntar sveitarstjórnum á næstu dögum og auglýst eftir umsóknum.

Þá hefur ráðuneytið gefið út reglugerð um úthlutun aflaheimilda til skel- og innfjarðarækjubáta vegna brests í þeim veiðum. Er við ákvörðun bóta litið til meðaltalsveiði í þessum tegundum síðustu tíu fiskveiðiár og þess að aðilar beri 30% skerðingu frá meðaltalsveiði óbætta. Samkvæmt reglugerðinni koma 3.584 þorskígildislestir til skiptingar milli rækju- og skelbáta.

Einnig hefur ráðuneytið gefið út reglugerð sem lýtur að úthlutun 3000 lesta aflaheimilda úr svonefndum jöfnunarsjóði og reglugerð um úthlutun 500 lesta af ýsu, 500 lesta af steinbít og 150 lesta af ufsa til krókaaflamarksbáta. Eru þessar reglugerðir óbreyttar frá yfirstandandi fiskveiðiári, að öðru leyti en því að bætur til einstakara báta samkvæmt þeirri síðarnefndu hafa lækkað um helming frá fyrra ári samkvæmt lögum, sem samþykkt voru Alþingi í desember 2003.

Loks hefur verið gefin út reglugerð um línuívilnun á næsta fiskveiðiári og er hún óbreytt að efni að öðru leyti en því, að línuívilnunin tekur einnig til veiða á þorski en er takmörkuð við 3.375 lestir í þeirri tegund.

Ofangreindar reglugerðir verða aðgengilegar á vefsíðu sjávarútvegsráðuneytisins í dag en Fiskistofa mun við úthlutun veiðileyfa og aflamarks í næstu viku kynna útgerðum fiskiskipa þessar reglur sem og aðrar reglur sem gilda um veiðar á komandi fiskveiðiári.

Jafnframt hefur ráðuneytið gefið út breytingar á reglugerðum um möskvastærðir í þorskfisknetum. Samkvæmt þessari breytingu er heimilt að veiða með 9 þumlunga möskvum til 1. janúar 2005 en eftir það verður leyfileg hámarksmöskvastærð 8 þumlungar.

Sjávarútvegsráðuneytinu, 13. ágúst 2004.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum