Norrænn fundur um fíkniefnamál á Ísafirði
Dagana 10. og 11. ágúst funduðu fulltrúar heilbrigðisráðuneytis, félagsmálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis um fíkniefnamál í blíðskaparverði á Ísafirði. Þetta var árlegur fundur ráðherra og fulltrúa í norrænni samstarfsnefnd sem meðal annars samræmir baráttu landanna gegn fíkniefnaneyslu. Fulltrúar Norðurlandanna, Álandseyja og Færeyja sóttu fundinn sem Jón Kristjánsson, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra stjórnaði. Meðal fundarmanna voru, auk fulltrúa landanna, Per Unckel, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, og fulltrúar frá Lýðheilsustöð.
Meginviðfangsefni fundarins að þessu sinni var meðferðarúrræði fyrir börn, unglinga og fjölskyldur þeirra. Þrír fyrirlesarar fjölluðu um það hvaða aðferðir hafa reynst vel við fíkniefnameðferð ungmenna: Harvey Milkman, prófessor við háskólann í Denver í Bandaríkjunum, Tore Andreassen, verkefnisstjóri hjá norska barna- og fjölskylduráðuneytinu og kennari við háskólann í Bodö í Noregi, og Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu. Tore Andreassen kynnti niðurstöður rannsókna sinna nánar á fræðslufundi sem haldinn var 12. ágúst á Barnaverndarstofu og má sjá efni fyrirlesturs hans á heimasíðu stofunnar bvs.is.
Frumniðurstöður úr Eyjaverkefninu svokallaða voru einnig kynntar, þar sem fjallað er um félagslegar aðstæður ungmenna sem þurfa flytjast að heima 16–17 ára til að sækja framhaldsskóla. Þetta er samstarfsverkefni Grænlands, Íslands, Færeyja og Álandseyja og hefur Þorgerður Rangarsdóttir, forstöðumaður Sjónarhóls, stýrt verkefninu. Þessar niðurstöður verða nánar kynnar á málþingi í Færeyjum í byrjun september næstkomandi.