Samningur um stuðning við uppbyggingu í Írak
Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum og Bisrat Aklilu, fulltrúi Þróunarmálastofnunar Sameinuðu þjóðanna undirrituðu þann 16. ágúst, samning milli Íslands og Þróunarmálastofnunar SÞ vegna endurreisnar og uppbyggingarstarfs í Írak.
Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að íslensk stjórnvöld leggi hálfa milljón bandaríkjadala, jafnvirði 36 milljóna íslenskra króna, í fjölþjóðlegan sjóð sem Sameinuðu þjóðirnar hafa umsjón með. Sjóðurinn fjármagnar verkefni vegna enduruppyggingar í Írak. Þetta framlag Íslands er hluti af 300 milljóna króna framlagi ríkisstjórnarinnar sem samþykkt var í apríl á síðasta ári. Samningurinn gerir ráð fyrir að hægt sé að verja fénu til ýmissa verkefna, s.s. á sviði heilbrigðismála, menntamála, uppbyggingu vatnsveitukerfa og skólplagana, hreinsun jarðsprengjusvæða og til aðstoðar sem að Sameinuðu þjóðirnar veita við undirbúning kosninga sem gert er ráð fyrir að fari fram í landinu á næsta ári.