Skýrsla um leiðir til að auka öryggi útflutningstekna
Fréttatilkynning
Mikilvægt er að tryggja til framtíðar öryggi útflutningstekna af íslenskum sjávarafurðum. Því er nauðsynlegt er að bregðast við og taka þátt í þeirri þróun sem er á útflutningsmörkuðum íslenskra sjávarafurða þar sem gerðar eru sífellt meiri kröfur til upplýsinga um efnainnihald og öryggi sjávarafurða. Tilviljanakennd umfjöllun í fjölmiðlum á útflutningsmörkuðum um neikvæða þætti sem tengjast sjávarafurðum getur á skömmum tíma valdið miklum skaða og gert að engu mikið og dýrt uppbyggingarstarf. Opinberar kröfur til öryggis sjávarfangs sem og annarra matvæla eru sífellt í mótun og Íslendingar hafa því aðeins aðgang að því ferli að það sé á grundvelli góðra upplýsinga og sérstakrar faglegrar þekkingar.
Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins hefur að beiðni sjávarútvegsráðherra gert skýrslu um leiðir til að auka öryggi útflutningstekna íslenskra sjávarafurða. Í skýrslunni er fjallað um þau atriði sem mestu máli skipta, s.s. heilnæmis- og hættuþætti varðandi fiskneyslu, áhættugreiningu, áherslur í Evrópu á sviði öryggis matvæla og sjónarmið framleiðenda og seljenda íslenskra sjávarafurða. Í skýrslunni eru ennfremur settar fram tillögur og fjallað um lykilaðgerðir til þess að auka öryggi sjávarafurða og þar með útflutningsteknanna.
Meginmarkmiðin með þessu starfi eru að styrkja samkeppnisstöðu íslenskra sjávarafurða á erlendum mörkuðum, viðhalda þeirri góðu ímynd sem íslenskar sjávarafurðir hafa skapað sér í gegnum árin og móta stefnu um öryggi íslenskra sjávarafurða. Meginleiðirnar sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins bendir á eru:
· að til staðar sé víðtæk sérfræðiþekking og aðstaða til mælinga á Íslandi
· að geta sýnt á vísindalegan hátt fram á hver staða íslenskra sjávarafurða er m.t.t. öryggis, heilnæmis og rekjanleika
· að geta haft áhrif á ákvarðanatöku um hámarksgildi hinna ýmsu efna og örvera á alþjóðlegum grundvelli
· að vera skrefi á undan erlendum kaupendum og stjórnvöldum
· að vera viðbúin óvæntum uppákomum og tilbúin með svör
· að skapa samstöðu um uppbyggingu þekkingar og tækni á Íslandi á sviði öryggis, heilnæmis og rekjanleika sjávarfangs.
Í skýrslunni leggur Rannsóknastofnunin fram fimm megintillögur um aðgerðir til þess að auka öryggi útflutningstekna íslenskra sjávarafurða:
1. Mynduð verði sérstök verkefnisstjórn sem móti stefnu og forgangsraði verkefnum.
2. Byggður verði upp aðgengilegur gagnvirkur gagnagrunnur um efnainnihald sjávarafurða.
3. Efla vöktunaráætlunina sem þegar er komin í gang á vegum sjávarútvegsráðuneytisins.
4. Áhættumat verið gert og þróað með sérstökum reiknilíkönum.
5. Sett verði upp sérstakt nýtt rannsóknasvið innan Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins sem vinni að öryggi og heilnæmi sjávarafurða.
Þær aðgerðir sem Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins gerir tillögur um munu, ef framkvæmdar verða, kalla á töluverða uppbyggingu í sérfræðiþekkingu, tækjakosti og aðstöðu. Það er mat stofnunarinnar og ráðuneytisins að sú uppbygging geti farið fram að mestu leyti utan höfuðstöðvanna í Reykjavík og tengst afar vel breytingum á eðli og starfsemi útibúa stofnunarinnar.
Sjávarútvegsráðherra kynnti efni skýrslunnar á ríkisstjórnarfundi í dag.
Sjávarútvegsráðuneytið 17. ágúst, 2004