Evrópskur tungumáladagur 2004
Til leik-, grunn-, framhalds-,háskóla og annarra hagsmunaaðila
Evrópuráðið ákvað í framhaldi af Evrópsku tungumálaári 2001 að halda Evrópskan tungumáladag hátíðlegan 26. september ár hvert. Aðildarlönd Evrópuráðsins eru hvött til þátttöku en áhersla er lögð á að framkvæmd taki mið af aðstæðum í hverju landi. Dagsins hefur verið minnst með ýmsum hætti í Evrópulöndum, þ.m.t. á Íslandi. Í ár ber 26. september upp á sunnudag og mælir menntamálaráðuneytið með að Evrópskur tungumáladagur 2004 verði þess í stað haldinn hátíðlegur föstudaginn 24. september nk.
Menntamálaráðuneytið hvetur skóla, aðrar fræðslustofnanir og hagsmunasamtök til að vekja með einhverjum hætti athygli á mikilvægi tungumálakunnáttu og símenntunar í tungumálum á Evrópskum tungumáladegi. Meðfylgjandi er bæklingur með ýmsum hugmyndum að verkefnum og aðgerðum. Bæklingurinn er einkum ætlaður skólum á öllum skólastigum. Var hann unninn í samvinnu ráðuneytisins og Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum. Á heimasíðu ráðuneytisins (www.menntamalaraduneyti.is/mrn/mrn.nsf/pages/Althjodlegt) er einnig að finna efni bæklingsins ásamt frekari upplýsingum. Jafnframt er bent á sérstaka heimasíðu Evrópuráðsins vegna tungumáladagsins. Þar má m.a.finna dæmi um áhugaverð verkefni og aðgerðir. Slóðin er: www.coe.int/EDL.
Ráðuneytið hefur falið Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum ýmsa framkvæmd vegna tungumáladagsins, s.s. skipulagningu dagskrár sem nánar verður kynnt síðar.
Í menntamálaráðuneytinu má nálgast íslenska útgáfu veggspjalds sem Evrópuráðið hefur látið hanna í tilefni tungumáladagsins.
Menntamálaráðuneytið væntir þess að Evrópskur tungumáladagur 2004 hafi jákvæð áhrif á tungumálanám og tungumálakennslu og verði einstaklingum hvatning til símenntunar á því sviði.