Afhending trúnaðarbréfs
Sveinn Björnsson, sendiherra, afhenti 19. ágúst, Jan Kubis, framkvæmdastjóra Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu (ÖSE) í Vínarborg, trúnaðarbréf sitt sem fastafulltrúi Íslands hjá Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu.
ÖSE gegnir mikilvægu hlutverki við eflingu öryggis, mannréttinda, lýðræðis og átakavarna í aðildarríkjunum sem eru fimmtíu og fimm talsins. Innan stofnunarinnar fer fram reglubundið samráð á sviði mannréttindamála, lýðræðis, réttinda minnihlutahópa, auk öryggis- og afvopnunarmála. Einnig má nefna víðtækt kosningaeftirlit á vegum stofnunarinnar í aðildarríkjunum. Öll ríki Evrópu eiga aðild að ÖSE auk Bandaríkjanna, Kanada, Kasakstan, Kirgisía, Tadsjikistan, Túrkmenistan og Úsbekistan.
Með framlagi stofnunarinnar á ofangreindum sviðum, ekki síst með starfi átján sendinefnda ÖSE á vettvangi í aðildarríkjunum, gegnir ÖSE þýðingarmiklu hlutverki við að tryggja stöðugleika og festa lýðræði í sessi.