Hoppa yfir valmynd
24. ágúst 2004 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Sameining Austur-Héraðs, Fellahrepps og Norður-Héraðs

Sameining sveitarfélaga
Sameining sveitarfélaga

Félagsmálaráðuneytið staðfesti þann 23. ágúst sl. sameiningu þriggja sveitarfélaga í umdæmi sýslumannsins á Seyðisfirði. Sveitarfélögin sem sameinast eru Austur-Hérað, Fellahreppur og Norður-Hérað.

Í atkvæðagreiðslu sem fram fór 26. júní 2004 lýsti meirihluti íbúa Fellahrepps, Norður-Héraðs og Austur-Héraðs sig hlynntan því að sveitarfélögin sameinuðust ásamt Fljótsdalshreppi í eitt sveitarfélag. Þrátt fyrir að sameiningartillagan hafi ekki hlotið samþykki íbúa Fljótsdalshrepps hafa sveitarstjórnir sveitarfélaganna þriggja ákveðið, með vísan til 2. mgr. 91. gr. sveitarstjórnarlaga, að sameina þau sveitarfélög sem samþykktu tillöguna.

Ráðuneytið telur skilyrði vera fyrir hendi til sameiningar sveitarfélaganna þriggja samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði og hefur það því fallist á beiðni sem undirrituð er af oddvitum sveitarfélaganna, dags. 4. ágúst 2004, þar sem óskað er eftir því að ráðuneytið staðfesti sameininguna. Jafnframt hefur ráðuneytið með úrskurði dags. 23. ágúst 2004 hafnað kröfu tólf íbúa Norður-Héraðs um að ákvörðun sveitarstjórnar Norður-Héraðs að fallast á tillögu um sameiningu sveitarfélaganna þriggja, verði órskurðuð ógild.

Sameiningin tekur gildi 1. nóvember 2004. Kosið verður til sveitarstjórnar hins sameinaða sveitarfélags laugardaginn 16. október nk. og hefst utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna þeirra 25. ágúst. Kjörtímabil nýrrar sveitarstjórnar varir fram að almennum sveitarstjórnarkosningum í maí 2006. Samhliða sveitarstjórnarkosningunum 16. október fer fram skoðanakönnun um nafn á sveitarfélagið.

Við sameininguna fækkar sveitarfélögum á landinu um tvö og verða þau þá 101 talsins.

Skjal fyrir Acrobat ReaderHeimild sveitarstjórnar til að ákveða sameiningu að lokinni atkvæðagreiðslu og skylda til að halda borgarfund um málið. (PDF, 100 KB)



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum