Hoppa yfir valmynd
25. ágúst 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sumarfundur norrænna umhverfisráðherra

Norrænir umhverfisráðherrar halda árlegan sumarfund sinn undir formennsku Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra þann 26. ágúst á Hótel Nordica í Reykjavík. Á fundinum verða rædd málefni Sellafield en stutt er síðan bresk stjórnvöld tilkynntu um umtalsverða minnkun á losun geislavirka efnisins teknesíum. Norrænu umhverfisráðherrarnir hafa ítrekað mótmælt þessari losun og því eru þessar fréttir fagnaðarefni, þótt losun geislavirkra efna verði ekki með öllu hætt, eins og Norðurlöndin hafa farið fram á.

Ráðherrarnir munu einnig ræða tillögu að nýrri norrænni umhverfisáætlun sem stjórna á samstarfinu á sviði umhverfismála næstu 4 árin, en hún var samin undir formennsku Íslands. Í áætluninni er áhersla lögð á fjóra þætti, sem bera yfirskriftina: Maðurinn, hafið, land og samfélag. Rædd verður ný reglugerð Evrópusambandsins um kemísk efni (REACH), sem Ísland og Noregur munu einnig taka upp í gegnum EES-samninginn, og hvernig hægt er að virkja hana til þess að bæta ástand umhverfisins og heilsu manna.

Í tengslum við fundinn munu umhverfisráðherrarnir ræða um endurnýjanlega orku og á hvern hátt Norðurlöndin geta aukið hlutdeild hennar í orkubúskapnum heima fyrir og á heimsvísu. Norðurlöndin hafa verið í fararbroddi við nýtingu endurnýjanlegrar orku og tækniþróun á því sviði og verður rætt um hvernig ríkin geti nýtt þá reynslu og þekkingu til að auka veg endurnýjanlegrar orku á alþjóðavettvangi, ekki síst í þeim tilgangi að draga úr skaðlegum loftslagsbreytingum.

Fréttatilkynning nr. 30/2004
Umhverfisráðuneytið



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta