Hoppa yfir valmynd
26. ágúst 2004 Utanríkisráðuneytið

Áróðursherferð gegn neyslu íslenska þorsksins mótmælt


Utanríkisráðuneytið sendi í dag bandarísku samtökunum Monteray Bay Aquarium bréf, þar sem brugðist er við áróðursherferð samtakanna gegn neyslu íslenska þorsksins í Bandaríkjunum og í Kanada. Samtökin hafa staðið fyrir dreifingu einblöðungs í vasabroti með lista yfir fisktegundir sem neytendur eru hvattir til að neyta eða að forðast á grundvelli náttúruverndarsjónarmiða. Í einblöðungnum er íslenski þorskurinn tilgreindur sem tegund fiskjar sem forðast beri sökum ofveiði.

Einblöðungnum er ætlað að aðstoða neytendur við val á sjávarafurðum í matvöruverslunum og á veitingastöðum, auk þess sem honum hefur verið dreift til skóla, dýragarða, fyrirtækja og stofnana í matvæla- og fiskiðnaði. Þannig hefur rúmlega tveimur milljónum bæklinga verið dreift um Bandaríkin og Kanada, m.a. með tímaritaáskriftum og á heimasíðu samtakanna.

Upplýsingarnar í einblöðungnum eru sagðar byggja á skýrslu sérstaks rannsóknaraðila, en þar koma fram misvísandi alhæfingar og rangfærslur um stöðu þorskstofnsins í Norður-Atlantshafi. Allir þorskstofnar svæðisins eru settir undir sama hatt, en íslenski þorskurinn einn sem nefndur er sérstaklega.

Í bréfi utanríkisráðuneytisins, sem tekið er saman í samráði við sjávarútvegsyfirvöld, eru upplýsingar samtakanna hraktar og þau hvött til afturkalla einblöðunginn eða leiðrétta rangfærslur sem fram koma í honum.

Afrit bréfs utanríkisráðuneytisins og einblöðungs samtakanna fylgja.


Utanríkisráðuneytið
Reykjavík, 26. ágúst 2004.

 

Bréf auðlindaskrifstofu til Monterey Bay samtakanna, 26. ágúst 2004

Einblöðungur Monterey Bay samtakanna

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta