Fundur norænna upplýsingatækniráðherra haldinn á Íslandi
26.8.2004
Norræna ráðherranefndin um upplýsingatækni hélt árlegan fund sinn að hótel Nordica í dag. Fjármálaráðherra, Geir H. Haarde, sat fundinn fyrir Íslands hönd, en hann fer með formennsku í ráðherranefndinni á formennskuári Íslands.
Á fundinum ræddu ráðherraranir m.a. um þróun lýðræðis í upplýsingasamfélaginu, en Norðurlöndin hafa haft forystu um að leita leiða til að nýta tæknina sem best í þágu þeirra lýðræðislegu gilda sem hin norrænu samfélög byggja á. Þau hafa nýtt tæknina til að opna stjórnsýsluna og hafa möguleikar manna til að fylgjast með athöfnum stjórnvalda og veita þeim aðhald gjörbreyst .
Á dagskrá fundarins var einnig stefnumörkun og undirbúningur starfsáætlunar nefndarinnar fyrir næstu 3 ár. Á fundinum kom fram að nefndin mun fyrst og fremst beina sjónum að þverfaglegum og samnorrænum málefnum í því augnamiði að styrkja stöðu Norðurlanda sem heildar og auka vægi þeirra í hinu alþjóðlega upplýsingasamfélagi. Einnig verður litið sérstaklega til þjóðlegra og menningarlegra þátta hins norræna samfélags.
Áætlað er að vinna fyrst og fremst að tvenns konar verkefnum, annars vegar að stofna til umræðu um grundvallarspurningar og álitamál í upplýsingasamfélaginu þar sem þörf er fyrir þverfaglega yfirsýn og hins vegar að skilgreina tiltekin verkefni í samráði við aðrar ráðherranefndir þar sem slíkar spurningar eða álitamál koma upp.
Þess hefur verið farið á leit við norrænu ráðherranefndina að hún taki virkan þátt í samstarfi Eystrasaltsráðsins og Evrópusambandsins um eflingu upplýsingasamfélagsins í löndunum austan Eystrasalts, sem gengur undir heitinu „Northern e-Dimension Action Plan" (NeDAP). Ráðherrarnir samþykktu að norræna ráðherranefndin gerðist aðili að vissum verkefnum NeDAP.
Í tengslum við og í framhaldi af ráðherrafundinum er haldin tveggja daga ráðstefna um Lýðræði og upplýsingatækni þar sem fjölmargir fræðimenn og stjórnmálamenn fjalla um viðfangsefnið frá ýmsum sjónarhornum.
Fjármálaráðuneytinu, 26. ágúst 200