Samráðsfundur utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í Palanga í Litháen
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra, sat í dag 26. ágúst 2004, árlegan samráðsfund utanríkisráðherra Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í Palanga í Litháen. Á fundinum var meðal annars fjallað um sameiginleg hagsmunamál ríkjanna og alþjóðamál sem eru ofarlega á baugi um þessar mundir.
Halldór Ásgrímsson lagði sérstaka áherslu á mikilvægi þess að koma samstarfi og samráði Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna í fastari og skilvirkari skorður, ekki síst hvað varðar skoðanaskipti um viðeigandi málefni Evrópusambandsins og Evrópska efnahagssvæðisins. Í tilefni af núverandi formennsku Íslands í EFTA gerði hann m.a. grein fyrir helstu áherslum innan fríverslunarsamtakanna á næstu mánuðum og minnti á áframhaldandi mikilvægi samráðs EES- EFTA ríkjanna annars vegar og ESB hins vegar um hvort tveggja málefni innri markaðarins og alþjóðamál.
Yossi Beilin, fyrrverandi dómsmálaráðherra Ísraels og Yasser Abed Rabbo, fyrrverandi menningarmálaráðherra Palestínsku sjálfstjórnarinnar voru sérstakir gestir á morgunverðarfundi ráðherranna, en fyrrnefndir eru upphafsmenn svonefnds Genfarferlis sem m.a. felur í sér tillögur óháðra félagasamtaka um hugsanlega friðsamlega lausn deilnanna fyrir botni Miðjarðarhafs.