Skipan í embætti ráðuneytisstjóra
Félagsmálaráðherra hefur í dag ákveðið að skipa Ragnhildi Arnljótsdóttur, lögfræðing, í embætti ráðuneytisstjóra félagsmálaráðuneytisins til fimm ára frá og með 15. september nk.
Ragnhildur er fædd 20. júní 1961. Hún útskrifaðist með kandídatspróf frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1991. Síðastliðin tvö ár hefur hún starfað sem fulltrúi félagsmálaráðuneytisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í sendiráði Íslands í Brussel. Á árunum 1995-2002 starfaði hún í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, fyrst sem deildarstjóri og síðan sem skrifstofustjóri almennrar skrifstofu frá 1999. Einnig hefur hún starfað sem lögfræðingur í nefndadeild skrifstofu Alþingis, starfað hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur og verið framkvæmdastjóri Lögfræðingafélags Íslands. Þar á undan starfaði hún hjá Ríkisútvarpinu sem fréttamaður og dagskrárgerðarmaður.
Umsækjendur um stöðuna voru sjö, en einn umsækjenda dró umsókn sína tilbaka eftir að umsóknarfrestur var úti. Allir umsækjendur voru metnir hæfir og endanlegt val því erfitt. Félagsmálaráðuneytið naut aðstoðar ráðningarþjónustu Mannafls við mat umsókna.