Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2004 Innviðaráðuneytið

Fundur samgönguráðherra Norðurlanda

Þann 23. ágúst sl. var haldinn fundur samgönguráðherra Norðurlanda á Egilsstöðum.
Fundur samgönguráðherra
Fundur á Egilsstöðum

Að frumkvæði Íslands hefur á vegum Norðurlandaráðs verið gerð ítarleg úttekt á samgöngum á milli Vestur-Norrænu landanna Íslands, Færeyja og Grænlands. Rannsóknarstofnun Háskólans á Akureyri sá um þá vinnu og var skýrslan kynnt á fundinum. Fram kom að sáralitlar samgöngur eru á milli þessara nágrannalanda. Mikilvægasta útflutningsgrein allra þessara eyríkja er sjávarafurðir og því hafa þessi lönd lítið að selja hvert öðru. Þó hefur færst í vöxt að ýmis neysluvarningur sé fluttur frá Íslandi til Færeyja, sem nemur nú um 1,3% af heildarútflutningi Íslands á ári. Mikil samgöngubót er að nýju Smyril-line ferjunni sem í fyrsta skipti í fyrra sigldi bæði sumar og vetur á milli Færeyja og Íslands en þörf er á tíðari flugsamgöngum á milli landanna. Engar samgöngur eru beint á milli Grænlands og Færeyja og það tekur 3-4 daga að komast frá Íslandi til Vesturstrandar Grænlands (þar sem flest fólkið býr) með flugi í gegnum Kaupmannahöfn og kostar a.m.k. tvöfalt meira en flug frá Íslandi til Peking í Kína. Skýrsluhöfundar bentu á að með uppbyggingu flugvalla á Grænlandi og auknu frjálsræði til að fljúga til og frá landinu myndu opnast miklir möguleikar fyrir Grænlendinga til að veita ferðaþjónustu. Þá voru settar fram áhugaverðar hugleiðingar um meiri tengsl Vestur-Norðurlanda við Kanada. Unnið verður áfram með þær hugmyndir sem settar voru fram á vettvangi Norðurlandaráðs.

Umferðaröryggismál áttu veglegan sess á dagskrá fundarins. Að frumkvæði Svía hefur verið unnið mjög metnaðarfullt starf í að móta verklagsreglur sem miða skulu að því að útrýma alvarlegustu umferðarslysunum. Fram komu hugmyndir s.s. um að hafa áfengismæla í bíllyklum, hlutverk ökukennslu og viðurlagakerfi vegna umferðarlagabrota auk þess að sjónum verður beint að öryggi gangandi og hjólandi vegfarenda. Þetta er hugsjón sem Norðurlöndin eru sammála um að gera að sinni og munu halda samstarfi áfram sem miðar að því að þróa aðferðir fyrir umferðaröryggi.

Ráðherrarnir skiptust á upplýsingum um hvernig að ákvörðunartöku er staðið varðandi áætlunargerð fyrir samgöngur, einkum um nýjungar í fjármögnun fjárfrekra samgöngumannvirkja og einnig um upplýsingar til almennings varðandi forsendur ákvarðana. Á öllum Norðurlöndunum eru fjárveitingar þingsins mikilvægasta fjármögnunin en færst hefur í vöxt að ráðist sé í samstarf opinberra aðila og einkafyrirtækja um fjármögnun einstakra mannvirkja. Þá hafa hin Norðurlöndin í nokkrum mæli tekið upp þá fjármögnunarleið að ríkissjóður taki lán fyrir framkvæmdum sem endurgreidd eru með innheimtum þóknunum fyrir notkun t.d. vegs eða brúar. Þetta hefur reynst góð leið til að hraða framkvæmdum.

Samstarf Norðurlanda vegna ýmissa mála sem eru í mótun á vettvangi Evrópusambandsins verður æ mikilvægara. Nú var t.d. rædd ný reglugerð um samræmdar aðferðir við gjaldtöku þungaflutningabifreiða fyrir notkun á vegum. Ráðherrarnir lýstu yfir áhyggjum af að þetta muni enn auka flutningskostnað í Evrópu og yfir að kröfur um eyrnamerkingu ráðstöfunar gjaldanna skerði sjálfsákvörðunarrétt þjóða. Einnig var rætt um nauðsyn þess að Ísland og Noregur sitji við sama borð og ESB ríkin varðandi yfirstandandi loftferðasamninga við Bandaríkin og síðar við önnur ríki s.s. Rússland og Japan.

Upplýsingagjöf til eftirlitsaðila og almennings um ýmis flugatvik sem ekki teljast alvarleg gerði norski ráðherrann að umtalsefni. Ráðherrarnir sammæltust um að setja á stofn vinnuhóp til að móta reglur um þetta mál og síðan að beita sér gagnvart Evrópusambandinu og Samtökum evrópskra flugmálastjórna.

Þann 24. ágúst var ráðherrunum boðið að skoða þær stórframkvæmdir sem nú standa yfir á Austurlandi, bæði í vega- og gangnagerð og virkjana- og stóriðjuundirbúningi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta