Ráðstefna um lýðræðið á öld upplýsingatækni
Dagana 26.-27. ágúst 2004 var haldin ráðstefna um lýðræðið á öld upplýsingatækni. Ráðstefnan var haldin á Hótel Nordica og sátu hana á annað hundrað manns frá öllum Norðurlöndunum. Þar var meðal annars fjallað um áhrif upplýsingatækni á lýðræðið og hvernig nýta má tæknina til að efla það.
Efnt var til ráðstefnunnar í tilefni af formennsku Íslendinga í Norrænu ráðherranefndinni og fór hún fram samhliða árlegum fundi norrænna upplýsingatækniráðherra. Meðal ráðstefnugesta voru ráðherrar, þingmenn, sveitarstjórnarmenn, fræðimenn og embættismenn víðs vegar að á Norðurlöndum.
Ráðstefnan hófst með pallborðsumræðum norrænu upplýsingatækniráðherranna undir stjórn norska fræðimannsins Mortens Øgård. Þar var meðal annars rætt um hvaða árangur hefði náðst með að nýta upplýsingatækni í þágu lýðræðisins og hvaða verkefni væri brýnast að leysa.
Önnur umfjöllunarefni voru áhrif upplýsingatækninnar á lýðræðið, nýting upplýsingatækninnar í þágu lýðræðisins og framtíð og þróun lýðræðisins sem stjórnarforms. Einnig voru kynnt störf nefndar sem stofnuð var í upphafi árs að frumkvæði Íslendinga til að kanna stöðu lýðræðis á Norðurlöndum.
Meðal fyrirlesara á ráðstefnunni voru Kim Viborg Andersen prófessor við Viðskiptaháskólann í Kaupmannahöfn, Fredrik Engelstad prófessor við Óslóarháskóla og Lars Torpe lektor við Álaborgarháskóla. Einnig töluðu þar Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ, Siv Friðleifsdóttir umhverfisráðherra og ráðherra norræns samstarfs og Steingrímur J. Sigfússon alþingismaður. Ráðstefnustjóri var Sigrún Stefánsdóttir forstöðumaður upplýsingaskrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.