Hoppa yfir valmynd
1. september 2004 Matvælaráðuneytið

Þrír norrænir ráðherrafundir á Akureyri.

Norrænir ráðherrar sem fara með atvinnu-, orku- og neytendamál funda á Hótel KEA á Akureyri dagana 2.-3. september.

Þar sem Ísland fer með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni í ár kemur það í hlut Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherrra að stýra fundunum.

Atvinnumálaráðherrarnir munu meðal annars staðfesta nýja stefnu sem miðar að því að efla atvinnulíf og nýsköpun á Norðurlöndum.

Hún byggir á skýrslunni Nordisk styrka, nationell nytta og global excellence sem kom út fyrr á þessu ári. Markmiðið er að efla samkeppnisstöðu Norðurlanda með auknu rannsóknar- og tækniþróunarsamstarfi og samræmdri stefnu á sviði vísindarannsókna og nýsköpunar. Þá munu ráðherrarnir ræða leiðir til að ryðja úr vegi hindrunum á norrænum landamærum fyrir fyrirtæki sem vilja vera með rekstur í fleiri en einu landi. Poul Schlüter, fyrrverandi forsætisráðherra Dana, hefur að undanförnu unnið á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar að tillögum til úrbóta í þessu efni og mun hann kynna þær á fundinum.

Norrænu orkumálaráðherrarnir munu ræða leiðir til að koma á norrænum raforkumarkaði án hindrana og tryggja aukið öryggi í raforkuflutningum. Þeir fjalla jafnframt um aðgerðir til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda með því að auka notkun endurnýjanlegra orkulinda og minnka olíunotkun við orkuframleiðslu, einkum á vestanverðum Norðurlöndum.

Á fundi norrænu neytendamálaráðherranna verður lögð fram ný samstarfsáætlun um neytendamál til næstu 5 ára. Önnur mál á dagskrá eru netviðskipti og aðgerðir til að vernda hagsmuni neytenda á Netinu. Ráðherrarnir funda jafnframt með starfsbræðrum sínum frá Eistlandi, Lettlandi og Litháen og ræða m.a. samræmingu laga um neytendavernd.

Fréttamenn eru boðnir til hádegisverðar á Hótel KEA föstudaginn 3.september kl.11:30.

Fréttamannafundur með ráðherrum hefst kl.12:30

Frekari upplýsingar veitir Pétur Örn Sverrisson lögfræðingur í iðnaðarráðuneyti s. 845 8531



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum