Fundur Halldórs Ásgrímssonar, utanríkisráðherra og Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar
Halldór Ásgrímsson, utanríkisráðherra og Laila Freivalds, utanríkisráðherra Svíþjóðar, munu eiga fund þriðjudaginn 7. september, en sænski utanríkisráðherrann er á Íslandi í fylgd sænsku konungshjónanna. Ráðherrarnir munu m.a. ræða Atlantshafstengslin og þróun sameiginlegrar öryggis- og varnarmálastefnu Evrópusambandsins. Ennfremur verður fjallað um samrunaferlið í Evrópu í ljósi væntanlegrar stjórnarskrár ESB. Þá er gert ráð fyrir að skipst verði á skoðunum um helstu áherslur landanna á 59. allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna, sem hefst í New York 14. þ.m., auk stöðu mála í Írak, Afganistan og í Miðausturlöndum. Fundurinn fer fram í Ráðherrabústaðnum og hefst kl. 13:15, en blaðamenn geta náð tali af ráðherrunum að fundi loknum kl. 14:30.