Opinn fundur um stækkun Skaftafellsþjóðgarðs
Ríkisstjórn Íslands samþykkti nýlega tillögu Sivjar Friðleifsdóttur umhverfisráðherra um að fyrsti áfangi í stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs verði stækkun þjóðgarðsins í Skaftafelli. Þjóðgarðurinn mun auk núverandi þjóðgarðs ná yfir syðsta hluta Vatnajökuls og friðlýsta svæðið í Lakagígum.
Ríkisstjórnin samþykkti hinn 26. september árið 2000 að unnið skyldi að stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs sem næði til jökulhettunnar, en það yrði stærsti þjóðgarður í Evrópu. Frá þeim tíma hefur verið unnið að undirbúningi stofnunar þjóðgarðsins undir forystu ráðuneytisins í nánu samráði við heimamenn. Nýverið skilaði ráðgjafarnefnd ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar, sem skipuð var fulltrúum sveitarfélaga sem fara með stjórnsýslu á Vatnajökli og annarra hagsmunaaðila, skýrslu til ráðuneytisins um þjóðgarðinn Vatnajökul.
Af þessu tilefni boðar umhverfisráðuneytið til opins fundar til að kynna þessi áform nánar, þar á meðal mörk stækkaðs þjóðgarðs og fyrirhugað starfsmannahald. Fundurinn verður haldinn í þjónustumiðstöðinni í Þjóðgarðinum Skaftafelli, sunnudaginn 12. september kl. 14:00 og eru allir velkomnir.
Fréttatilkynning nr. 33/2004
Umhverfisráðuneytið