Fréttapistill vikunnar 4. - 10. september
ÚItboð vegna byggingar nýrrar heilsugæslustöðvar og hjúkrunarheimilis á Selfossi
Ríkiskaup auglýsa um helgina eftir tilboðum í byggingu 1.áfanga viðbyggingar við Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi. Framkvæmdasýsla ríkisins sér um framkvæmdina fyrir hönd heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Um er að ræða nýbyggingu rúmlega 4 þúsund fermetra að stærð, sem rísa mun vestan við núverandi sjúkrahúsbyggingu á Selfossi og tengjast henni með léttbyggðri tengiálmu. Samkvæmt frétt á heimasíðu Ríkiskaupa hefst sala útboðsgagna næsta þriðjudag. Meginhluti byggingarinnar verður þrjár hæðir. Heilsugæslustöð verður á fyrstu hæð og hjúkrunarheimili á annarri hæð. Í kjallara er gert ráð fyrir tæknirými, fundarsal, aðstöðu til endurhæfingar og kapellu. Verkið verður unnið í tveimur áföngum og skal því að fullu lokið eigi síðar en 1. febrúar 2007. Á heimasíðu Ríkiskaupa kemur fram að tilboð verði opnuð hjá Ríkiskaupum þriðjudaginn 5. október kl. 15:00 að viðstöddum þeim bjóðendum sem þess óska.
Lokuð geðdeild verður á Kleppi
Ákveðið hefur verið að lokuð geðdeild fyrir einstaklinga sem taldir eru hættulegir sjálfum sér og umhverfi sínu verði staðsett á Kleppsspítala. Um tuttugu einstaklingar eru taldir falla undir þessa skilgreiningu.
Alþjóðlegur sjálfsvígsforvarnadagur
,,Að koma í veg fyrir sjálfsvíg og sjálfsvígstilraunir meðal unglinga” heitir bæklingur sem kominn er út í vefútgáfu og er liður í forvarnarverkefninu Þjóð gegn þunglyndi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gaf bæklinginn út árið 2000 sem hluta svonefnds SPURE-verkefnis sem er sjálfsvígsforvarnaáætlun á heimsvísu á vegum stofnunarinnar. Bæklingurinn hefur verið lagaður að íslenskum aðstæðum. Útgáfudagur bæklingsins á Netinu í dag er vel við hæfi, því 10. september er alþjóðlegur sjálfsvígsforvarnardagur að ákvörðun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar.
LOFT – ráðstefna um tóbaksvarnir
Dagana 16. og 17. september verður haldin ráðstefnan LOFT á Hótel Örk í Hveragerði. Þetta er þriðja LOFT ráðstefnan um tóbaksvarnir og að þessu sinni hefur Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði umsjón með ráðstefnuhaldinu. Ráðstefnan er opinn vettvangur fyrir heilbrigðisstarfsfólk og aðra sem áhuga hafa á tóbaksvörnum.
Dagskrá...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
10. september 2004