Fréttapistill vikunnar 11. ? 17. september
Framkvæmdir að hefjast við Hjúkrunar- og dvalarheimilið Naust á Þórshöfn
Framkvæmdir hefjast á næstunni við viðbyggingu Hjúkrunar- og dvalarheimilisins Nausts á Þórshöfn. Tvö tilboð bárust í verkið og var tilboði lægstbjóðanda, Trésmiðjunnar Rein ehf., tekið. Um er að ræða hjúkrunarálmu og borðsal, samtals rúmlega 370 fermetra bygginu vestan við núverandi hús, auk 16 fermetra anddyris norðan við húsið. Byggingu hússins og frágangi að innan sem utan ásamt frágangi lóðar skal lokið eigi síðar en 30. september 2005.
Aukin þjónusta við eldri borgara á Suðurnesjum
Frá og með 22. september 2004 verður starfrækt sérstök móttaka fyrir íbúa Suðurnesja, 70 ára og eldri þar sem boðið verður upp á heilbrigðiseftirlit og stuðning. Markmið með tilboði um aukna þjónustu fyrir eldri borgara er að styðja þá og stuðla að því að þeir geti búið á heimilum sínum sem lengst og viðhaldið góðri heilsu sinni. Það sem eldri borgurum býðst eru blóðþrýstings- og blóðsykursmælingar, heyrnarmælingar, ráðgjöf varðandi hreyfingu, mataræði, lyf, hjálpartæki, öryggistæki, og félagsleg réttindi sín. Þá er einnig í boði að láta bólusetja sig s.s. inflúensubólusetningar á haustin og lungnabólgubólusetningar allan ársins hring. Komugjöld er þau sömu og á heilsugæslustöðinni, þ.e. 300,- kr og 150 kr. fyrir þá sem eru með afsláttarkort. Slóðin á heimasíðu heilbrigðisstofnunar Suðurnesja er www.hss.is.
Tilboð opnuð í framkvæmd við Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupsstað
Tvö tilboð bárust vegna endurbóta og viðbyggingu við Fjórðungssjúkrahúsið á Neskaupsstað. Ríkiskaup auglýsti eftir tilboðum fyrir hönd Framkvæmdasýslu ríkisins og heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Byggð verður 305 fermetra viðbygging við sjúkrahúsið. Jafnframt verður gamla sjúkrahúsið endurinnréttað en það er alls þrjá hæðir að grunnfleti, samtals rúmir eitt þúsund fermetrar. Í verkinu felst meðal annars að fjarlægja núverandi þak, byggja nýja hæð og þak og nýtt anddyri utan á húsið, auk ýmissa annarra minni viðgerða og breytinga. Verkinu á að vera lokið að fullu að innan sem utan ásamt frágenginni lóð eigi síðar en 1. apríl 2006. Kostnaðaráætlun vegna verksins nemur rúmum 168 milljónum króna. Tilboðin sem bárust voru bæði yfir kostnaðaráætlun. Annað þeirra nam tæpum 262 milljónum króna eða 55,6% yfir kostnaðaráætlun og hitt um 277 milljónum króna sem er 64% yfir áætlun.
Mótun viðbragðsáætlunar LSH
Framkvæmdastjórn Landspítala ? háskólasjúkrahúss hefur skipað fimm nefndir til að vinna að mótun viðbragðsáætlunar LSH. Nefndirnar eru skipaðar að tillögu viðbragðstjórnar sjúkrahússins og eiga allar að ljúka störfum um næstu áramót. Viðbragðsáætlun LSH skiptist í fjóra hluta sem eru hópslys, bráðir smitnæmir sjúkdóma, eiturefni og geislavirk efni. Viðbragðsstjórn LSH hefur það hlutverk að hafa yfirsýn og stjórna aðgerðum af hálfu sjúkrahússins þegar á reynir vegna hópslysa, farsótta eða annarra vár sem varðar almannaheill og er þáttur í uppbyggingu almannavarna í landinu, sbr. lög um almannavarnir.
Nánar...
Fyrstir með rafræna launaseðla hjá SHA
Sjúkrahúsið og heilsugæslustöðin á Akranesi verða fyrst ríkisfyrirtækja til að senda starfsmönnum sínum launaseðla á rafrænu sniði. Launaskrifstofa SHA hefur undirbúið nýjung þessa um nokkurn tíma og um næstu mánaðarmót verður hún endanlega að veruleika. Launavinnslan verður áfram hjá launaskrifstofunni en launagögnin eru send banka sem sér um að senda upplýsingar um launin í heimabanka viðkomandi starfsmanns. Á heimasíðu SHA (www.sha.is) kemur fram að fyrirkomulagið sé hagkvæmt.
Kynningarbæklingur um undirbúning að breyttri fjármögnun LSH
Gefinn hefur verið út bæklingur þar sem kynnt er starf sem unnið hefur verið á Landspítala háskólasjúkrahúsi (LSH) til undirbúnings breyttri fjármögnun hans með notkun DRG-flokkunarkerfis. Í bæklingnum er DRG flokkun lýst þannig: ,,DRG flokkun eykur gegnsæi og gefur skýra mynd af starfsemi sjúkrahúsa. Möguleikar opnast á samanburði við aðrar stofnanir innan lands jafnt sem utan. Flokkunin lýsir á kerfisbundinn hátt starfsemi sjúkrahúsa þar sem verið er að sinna fjölbreytilegum og oft ólíkum sjúklingahópum á hverjum tíma. DRG flokkun hentar í allri almennri heilbrigðisþjónustu með áherslu á bráðasvið sjúkrahúsa en sértækar lausnir þarf fyrir endurhæfingu, öldrun, geðdeildir og líknandi meðferð. Í raun er um að ræða tvö kerfi þ.e. fyrir legusjúklinga annars vegar og dag- og göngudeildarsjúklinga (DRG-O) hins
vegar. Með seinna kerfinu flokkast einnig legur þar sem legutími telst vera einn dagur.? Fram kemur í bæklingnum að flokkun hafi nýlega hafist á slysa- og bráðasviði spítalans en eitt af markmiðum verkefnisins er að allar dag- og göngudeildir verði komnar með DRG-O flokkun við árslok 2004.
Nánar...
Endurskoðun manneldismarkmiða, nýjar ráðleggingar
Birtar hafa verið nýjar ráðleggingar um mataræði og næringarefni. Ráðleggingarnar eru endurskoðuð útgáfa fyrri manneldismarkmiða þar sem tekið er mið af nýjum vísindarannsóknum á sviði næringar og heilsu og niðurstöðum könnunarinnar á mataræði Íslendinga árið 2002. Sagt er frá þessu á heimasíðu Lýðheilsustöðvar (www.lydheilsustod.is) og þar eru ráðleggingarnar birtar.
Nánar...
Alþjóðleg samræming skyndihjálparviðbragða
Alþjóða Rauði krossin tilkynnti á skyndihjálpardegi rauða krossins, 11. september s.l. að hann muni gefa út leiðbeiningar um alþjóðlega samræmingu á skyndihjálparviðbrögðum. Alþjóða Rauði krossinn áætlar að ár hvert sé um tíu milljónum mannslífa bjargað með því að nágrannar og vegfarendur veiti fórnarlömbum óhappa eða slysa skyndihjálp á vettvangi. Á vegum Rauða krossins eru milljónir manna þjálfaðar í skyndihjálp á hverju ári. Alþjóða Rauði krossinn hefur undanfarið unnið með Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni (WHO) og fleirum að samræmingu skyndihjálpar og hefur í því skyni leitað til margra landa og færustu sérfræðinga.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið,
17. september 2004