Ársfundur NAFO í Kanada
21. september 2004
Fréttatilkynning
Dagana 13.-17. september s.l. var haldinn í Dartmouth, Nova Scotia í Kanada, 26. ársfundur Norðvestur-Atlantshafs fiskveiðistofnunarinnar, NAFO. Á dagskrá fundarins var ákveðið heildaraflamark og stjórn veiða á NAFO svæðinu, sem er hafsvæðið vestan og sunnan Hvarfs á Grænlandi. Íslensk skip hafa í mörg ár veitt rækju á svæðinu en síðstliðin tvö ár hefur úthafskarfi einnig verið veiddur þar.
Eftirlitsmenn
Á ársfundi NAFO árið 2003 var samþykkt tilraunaverkefni til tveggja ára um fækkun eftirlitsmanna gegn nákvæmari upplýsingagjöf um veiðarnar. Verkefnið byggir á hugmyndum og tæknilegum útfærslum Íslendinga. Öll íslensk skip sem veitt hafa á NAFO svæðinu í ár hafa tekið þátt í verkefninu og benti Ísland á nokkur tæknileg atriði sem útfæra þarf betur. Ísland ítrekaði jafnframt fyrri mótmæli sín við að skylt væri að hafa eftirlitsmann um borð í öllum skipum sem veiða á NAFO svæðinu.
Þá var samþykkt tillaga Íslands sem ætlað er að tryggja betur skilvirkni og eftirfylgni eftirlits þegar skipstjórar hafa gerst brotlegir gagnvart reglum sem gilda um veiðarnar. Samkvæmt tillögunni eiga starfsmenn eftirlitsskipa á svæðinu nú rétt á að dvelja um borð í veiðiskipi þegar upp kemst um brot og þar til það hefur verið rannsakað frekar.
Skeytasendingar skipa
Ísland hefur verið í fararbroddi um að samræma reglur á milli NAFO og NEAFC (Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndin) um skeytasendingar og á fundinum var lögð fram sameiginleg tillaga Íslands, Noregs og Danmerkur (f.h. Færeyja og Grænlands) um frekari samræmingar. Tillagan var samþykkt og mun hún einfalda reglur fyrir skipstjóra varðandi skeytasendingar.
Þá hafa NAFO og NEAFC ákveðið að vinna saman að því að halda til haga tæknilegum upplýsingum og útfærslum á uppbygginu skeyta, m.a. með því að koma á fót heimasíðu um skeytakerfin. Ísland tók að sér að leiða þessa vinnu í samvinnu við starfsmenn NAFO og NEAFC.
Nokkrar tækninefndir eru starfandi innan NAFO og fjallar ein þeirra um eftirlitsmál og stjórnun á veiðum á NAFO svæðinu. Næsti vinnufund þeirrar nefndar verður haldinn vorið 2005 á Íslandi.
Rækja
Fram kom hjá vísindanefnd NAFO að ástand rækjustofnsins á Flæmingjagrunni sé gott. Samþykkt var óbreytt stjórn á veiðunum fyrir árið 2005 og að fjöldi sóknardaga yrði sá sami og á árinu 2004. Íslensk stjórnvöld hafa mótmælt sóknarstýringu á þessu svæði frá því að hún var tekin upp á árinu 1996 vegna efasemda um að hægt væri að stjórna veiðunum með sóknarstýringu og lagt til að veiðunum væri stjórnað með aflamarki. Ísland ítrekaði mótmæli sín og mun áfram stjórna veiðunum einhliða með aflamarki, sem ákveðið verður á næstu mánuðum.
Úthafskarfi
Frá því að úthafskarfaveiðar hófust hafa veiðarnar nánast eingöngu verið stundaðar á samningssvæði NEAFC en á undanförnum árum hefur veiði aukist á NAFO svæðinu. Erfitt hefur reynst að ná stjórn á þeim veiðum þar sem ákvarðanir NEAFC hafa ekki verið bindandi fyrir þær þjóðir sem ekki eru aðilar að þeim samtökum og hafa því gert tilkall til hlutdeildar í stofninum. Til að reyna að ná heildarstjórn á veiðunum hefur á undanförnum árum verið gert samkomulag um að þeim þjóðum, sem ekki hafa verið aðilar að NEAFC, væri heimilt að veiða 7.500 tonn af úthafskarfa. Við stækkun Evrópusambandsins 1. maí s.l. eru hins vegar flestar þessar þjóðir, sem veitt hafa þetta magn, orðnar aðilar að NEAFC. Því náðist samkomulag um að 6.500 tonnum yrði úthlutað til Evrópusambandsins en 1.000 tonn til annarra þjóða sem ekki eru aðilar að NEAFC. Eftir sem áður er eingöngu heimilt að veiða þetta magn á samningssvæði NAFO.
Formaður íslensku sendinefndarinnar var Guðríður M. Kristjánsdóttir lögfræðingur í sjávarútvegsráðuneytinu.
Sjávarútvegsráðuneytið.