Hoppa yfir valmynd
21. september 2004 Matvælaráðuneytið

Frumvörp um hlutafélög og einkahlutafélög.

Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti

Nr. 19/2004

Fréttatilkynning

Drög að frumvörpum um hlutafélög og einkahlutafélög

Í kjölfar útgáfu skýrslu nefndar um íslenskt viðskiptaumhverfi hefur viðskiptaráðuneytið unnið drög að frumvörpum um breytingar á lögum um hlutafélög og einkahlutafélög. Drögin eru í samræmi við skýrslu nefndarinnar.

Ráðuneytið hefur nú sett drögin á vef sinn, vidskiptaraduneyti.is. Einstaklingar, fyrirtæki og stofnanir eru hvattar til að senda ráðuneytinu umsögn um drögin. Umsagnir skulu berast; bréflega (Viðskiptaráðuneytið, Arnarhvoli, 150 Reykjavík); á faxi (562 1289); eða í tölvupósti ([email protected]), eigi síðar en þriðjudaginn 5. október nk.

Helstu atriði frumvarpsdraganna eru:

1. Boðun hluthafafundar: Lagt er til að lágmarksfrestur stjórnar hlutafélags til að boða til hluthafafundar og leggja fram tilskilin gögn fyrir fundinn verði lengdur í 14 daga.

2. Framboð til stjórnar: Lagt er til að frambjóðendur til stjórnar hlutafélaga verði skyldugir til að skila inn tilkynningu um framboð, ásamt upplýsingum um sjálfa sig, eigi síðar en fimm dögum fyrir hluthafafund þar sem stjórnarkjör er á dagskrá. Upplýsingar um frambjóðendur til stjórnar skulu lagðar fram hluthöfum til sýnis á skrifstofu félags minnst tveimur dögum fyrir hluthafafund þar sem stjórnarkjör er á dagskrá.

3. Nýting atkvæðisréttar: Lagt er til að skráðum félögum verði skylt að gefa hluthöfum sínum kost á að greiða atkvæði bréflega eða með rafrænum hætti um mál sem eru á dagskrá hluthafafundar.

4. Rafrænir hluthafa- og stjórnarfundir og rafræn samskipti: Lagt er til að öllum hlutafélögum og einkahlutafélögum verði heimilt að halda rafræna hluthafafundi og stjórnarfundi, sem og að eiga rafræn samskipti við hluthafa sína. Í því felst meðal annars að hluthafar eiga að geta tekið þátt í hluthafafundi og greitt atkvæði rafrænt þótt þeir séu ekki á staðnum.

5. Starfskjör stjórnenda: Lagt er til að stjórnum hlutafélaga og einkahlutafélaga með fleiri en fjóra hluthafa verði skylt að fá samþykki hluthafafundar á starfskjarastefnu fyrir stjórnendur, þar á meðal varðandi kaupréttarsamninga, árangurstengdar greiðslur, hlunnindi, uppsagnarfrest og starfslokasamninga. Mælt er með því að starfskjarastefnan verði leiðbeinandi fyrir stjórnir, en þeim verði skylt að greina frá því ef vikið er frá stefnunni og rökstyðja ástæður þess. Stefna varðandi kaupréttarsamninga skal þó vera bindandi fyrir stjórnir félaga. Starfskjarastefnan skal rædd á aðalfundi ár hvert og skulu hluthafar upplýstir um stefnuna eða helstu atriði hennar, sem og áætlaðan kostnað vegna kaupréttaráætlana sem samþykkja skal á fundinum. Á aðalfundi skal stjórn einnig gera hluthöfum grein fyrir starfskjörum þeirra stjórnenda sem hún ræður.

6. Störf stjórnarformanns: Lagt er til að stjórnarformanni hlutafélags verði ekki heimilt að taka að sér önnur störf fyrir félagið en þau sem falla undir eðlileg störf stjórnarformanns. Stjórn félagsins getur þó falið formanni að vinna einstök verkefni fyrir stjórnina.

7. Fundir stjórnarmanna án framkvæmdastjóra: Lagt er til að skýrt verði tekið fram í lögum að stjórnir megi funda án framkvæmdastjóra.

8. Viðskipti við tengda aðila: Til að minnka líkur á hagsmunaárekstrum er lagt til að skylt verði að upplýsa stjórn um öll viðskipti félagsins við tengda aðila ef viðskiptin teljast veruleg. Þá er einnig lagt til að stjórn verði gert skylt að gera grein fyrir öllum slíkum viðskiptum sem farið hafa fram á árinu á aðalfundi félagsins.

9. Rannsóknir á starfsemi félags: Lagt er til að hluthöfum í hlutafélögum og einkahlutafélögum verði auðveldað að fara fram á sérstaka rannsókn á starfsemi félags, og að nægilegt sé að tillaga um rannsókn hljóti fylgi hluthafa sem ráða yfir 1/10 hlutafjárins.

10. Skaðabætur: Lagt er til að hluthafar í hlutafélögum og einkahlutafélögum sem ráða yfir 1/10 hlutafjár geti höfðað skaðabótamál í nafni félags, en á eigin kostnað, gegn stofnendum, stjórnarmönnum, framkvæmdastjórum, endurskoðendum og skoðunarmönnum hlutafélags, svo og matsmönnum og rannsóknarmönnum, sem taldir eru hafa valdið félaginu tjóni í störfum sínum.

Reykjavík, 21. september 2004.

Drög að frumvarpi um einkahlutafélög (pdf-skjal - 138kb)

Drög að frumvarpi um hlutafélög (pdf-skjal - 187kb)



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum