Alþjóðlegur fundur IPHE á sviði vetnis á Íslandi.
Iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti
Nr. 20/2004
Alþjóðlegur fundur IPHE á sviði vetnis á Íslandi
Dagana 23. og 24. september verður haldinn í Reykjavík fundur framkvæmdanefndar IPHE, International Partnership for the Hydrogen Economy, sem er samstarf 15 þjóða sem stofnað var til að frumkvæði Bandaríkjanna í nóvember 2003. Iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir, mun ávarpa og setja fundinn í Þjóðmenningarhúsinu fimmtudaginn 23. september kl. 9:00. Fjölmiðlum er boðið að vera viðstaddir setninguna. Búist er við að um 80 manns frá 20 þjóðlöndum sæki fundinn.
Á fundinum í Reykjavík verða tvö meginmál til umræðu: Í fyrsta lagi skipulag starfsins með áherslu á menntun og alþjóðatengsl á sviði vetnisþróunar. Í öðru lagi verður fjallað um vetnisverkefni víða um heim og þá þróun og árangur sem náðst hefur. Þar munu fulltrúar ýmissa landa og svæða s.s. Íslands, Bandaríkjanna, Kaliforníu, Evrópusambandsins, Japan, Kína og Kóreu fjalla um verkefni á sviði vetnisþróunar. Fulltrúar samtaka bílaframleiðenda munu kynna sjónarmið sín á fundinum en miklum fjármunum er varið af þeirra hálfu til þróunar vetnisbifreiða sem ætlunin er að markaðssetja innan 10-15 ára. Slíkt mun krefjast nýrra aðstæðna, s.s. framboðs á vetni og tækniþjónustu. Vaxandi áhugi er á aðild að IPHE og fjallað verður um umsóknir fimm nýrra þjóða. Ísland er ásamt Þýskalandi í forystu fyrir framkvæmdanefnd IPHE og er Þorsteinn Ingi Sigfússon prófessor annar formanna nefndarinnar, ásamt Hanns-Joachim Neef frá Þýskalandi. Ágúst Valfells frá Orkustofnun er einnig fulltrúi Íslands í nefndinni.
Vetnisstöðvum fer ört fjölgandi víðsvegar um heim og eru þær nú um 87 talsins og var sú síðasta vígð í Perth í Ástralíu fyrir viku síðan. Í Japan eru þegar hafin þróunarverkefni á sviði vetnis í 31 borg, sem tengjast bifreiðum sem og rafmagnskerfum. Rannsóknir á sviði vetnis eru afar fjölbreytilegar svo sem vetnisnotkun bifreiða, orkugeymsla og notkun á raforkukerfi til almennings, vetnisframleiðsla, o.fl. Þess má geta að íbúafjöldi stofnþjóða IPHE er um 3,5 milljarðar og þau lönd standa fyrir um 85% af landsframleiðslu heimsins (GDP), 75% af allri raforkuframleiðslu og eru jafnframt ábyrgar fyrir um 2/3 af útblæstri gróðurhúsagass á jörðinni.
Starfsemi IPHE fer fram í tveim nefndum, annars vegar stjórnarnefnd er sinnir stefnumörkun samstarfsins og hins vegar framkvæmdanefnd sem sinnir áætlunum og framkvæmd verkefna og tekur Ísland þátt í starfi beggja þessara nefnda. Skrifstofa IPHE í Washington sér um rekstur samstarfsins og er kostuð af Bandaríkjunum. Markmið IPHE samstarfsins er að efla þróun og skilvirkt samstarf og verkefni á sviði vetnisrannsókna, til að auðvelda þróun hagkerfa í átt að vetnisvæðingu. Stefnt er að því að neytendur eigi kost á vetnisbifreiðum á samkeppnishæfu verði með viðeigandi þjónustu og eldsneyti fyrir árið 2020.
Fundur framkvæmdanefndar IPHE sem nú er haldinn hér á landi byggir á stofnsáttmála IPHE sem og áherslum og stefnumörkun stjórnarnefndar IPHE frá fundi sem haldinn var 25.–27. maí sl. og þann fund sóttu af Íslands hálfu Baldur Pétursson, iðnaðarráðuneyti og Gunnar Pálsson, sendiherra, sem sæti eiga í stýrinefnd IPHE. Stefna IPHE felst m.a í áherslu á aukið alþjóðlegt samstarf, samræmingu, rannsóknir, kynningu og samstarf á milli einkaaðila og opinberra aðila. Vaxandi umsvif eru á sviði vetnismála hjá flestum aðildarlöndum og auknu fjármagni er varið til málaflokksins. Áherslur á sviði vetnis tengjast stefnumörkun margra landa á sviði umhverfismála og viðleitni til að draga úr mengun og gróðurhúsalofttegundum, sem og að treysta öryggi í orkuöflun. Takmarkaðar olíubirgðir heims og sveiflur á verði olíu hefur ýtt enn frekar undir þróun á vetni sem nýjum valkosti sem orkubera.
Þátttaka Íslands í starfi IPHE er í samræmi við stefnumörkun stjórnvalda á sviði vetnis- og orkumála er miðar að þróun í átt að vetnisvæddu hagkerfi, svo fljótt sem það verður tæknilega og efnahagslega hagkvæmt. Einn þáttur þessarar stefnu er að á Íslandi geti orðið vettvangur alþjóðlegra vetnisrannsókna, þar sem lögð verði áhersla á hagstæð starfsskilyrði, alþjóðlegt samstarf, þróun tilraunaverkefna og þekkingu. Stefna Íslands á sviði vetnisvæðingar er í samræmi við stefnu á sviði orku- og umhverfismála sem miðar að sjálfbærri nýtingu endurnýjanlegra orkulinda. Verkefni á sviði vetnisrannsókna hér á landi hafa þegar vakið alþjóðlega athygli.
Reykjavík, 22. september 2004.