Öryggisvika sjómanna haldin dagana 24. september - 1. október 2004.
Í tengslum við alþjóðasiglingadaginn 26. september n. k. er í annað sinn haldin Öryggisvika sjómanna dagana 24. september - 1. október 2004. Þema hennar er að þessu sinni "Forvarnir auka öryggi".
Dagskrá vikunnar er í grófum dráttum þessi:
Föstudaginn 24. september, kl. 10:45 leggur Sæbjörg, skólaskip Slysavarnafélagsins Landsbjargar, úr höfn frá Miðbakkanum í Reykjavík. Siglt verður út á Ytri höfnina þar sem Sturla Böðvarsson, samgönguráðherra, og Ragnhildur Hjaltadóttir, ráðuneytisstjóri, síga úr þyrlu Landhelgisgæslunnar um borð. Um kl. 11:00 setur ráðherra Öryggisviku sjómanna 2004 og að því loknu verður kynning á dagskrá vikunnar.
Á Alþjóðasiglingadaginn, sunnudaginn 26. september, kl. 13:00 til 16:00 verða hátíðarhöld í tilefni dagsins á Miðbakkanum í Reykjavík. Með hátíðarstjórn fer Guðmundur Hallvarðsson, formaður samgöngunefndar Alþingis.
Þar verða til sýnis varðskip, hafrannsóknarskip, björgunarskip SL og fiskibátar auk þess sem skólaskipið Sæbjörg verður opin gestum. Þar verður m.a. kynning á áætlun um öryggi sjófarenda og kaffisala slysavarnakvenna. Dregið verður í happdrætti og er óvæntur vinningur sem tengist öryggismálum sjómanna. Miðar verða afhentir á staðnum.
Landhelgisgæslan mun sýna björgun úr sjó með þyrlu kl. 13:30 og keppt verður í flotgallasundi milli Slysavarnafélagsins Landsbjargar og Landhelgisgæslunnar kl. 14:30.
Föstudaginn 1. október, kl. 10:00 ? 18:00 lýkur Öryggisvikunni með ráðstefnu um öryggismál sjómanna í hátíðarsal Sjómannaskólans í Reykjavík. Með fundarstjórn fara Unnur Sverrisdóttir, formaður verkefnisstjórnar áætlunar um öryggi sjófarenda og Guðjón Á. Einarsson, framkvæmdastjóri Félags skipstjórnarmanna. Dagskrá ráðstefnunnar er eftirfarandi:
- Setning ráðstefnu.
- Áætlun um öryggi sjófarenda. Siglingastofnun Íslands.
- Skiparannsóknir Siglingastofnunar Íslands. Siglingastofnun Íslands.
- Hvað er sjóveiki? Hannes Petersen læknir.
- Vinnuvistfræði fyrir sjómenn. Magnús H. Ólafsson, sjúkraþjálfari.
- Kynning á öryggisfulltrúakerfi. Ágúst Þorsteinsson, Öryggiskeðjan ehf.
- Notkun þjónustu- og þjálfunarhandbóka. Siglingastofnun Íslands.
- Reynslan af forvörnum í skipum. Gunnar Tómasson, Þorbjörn-Fiskanes hf.
- Reynslan af forvörnum í flutningaskipum. Eyþór H. Ólafsson, Eimskip.
- Lokaerindi. Ásbjörn Óttarsson skipstjóri.
- Umræður og fyrirspurnir.
- Pallborðsumræður.
Veitingar á ráðstefnunni verða í boði samgönguráðuneytis og Siglingastofnunar Íslands.
Meðan á ráðstefnu stendur verður hin glæsilega sýning "Í örugga höfn" höfð uppi í Sjómannaskólanum en þar er um að ræða gamlar og nýjar myndir tengdar sjó og siglingum.