Skipun í embætti þjóðleikhússtjóra
Menntamálaráðherra hefur skipað Tinnu Gunnlaugsdóttur í embætti þjóðleikhússtjóra til fimm ára frá 1. janúar 2005. Átján umsóknir bárust um embættið.
Tinna fæddist í Reykjavík 18. júní 1954 og lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1973. Hún stundaði nám við Háskóla Íslands í líffræði og lauk 30 einingum. Þaðan lá leiðin í Leikslistarskóla SÁL en síðar hóf hún nám við Leiklistarskóla Íslands og útskrifaðist þaðan 1978. Tinna hefur sótt námskeið í leiklist, handritsgerð og menningarstjórnun erlendis. Hún hefur samhliða vinnu stundað meistaranám (MBA) við Háskólann í Reykjavík frá 2003 og mun ljúka því námi 2004.
Tinna starfaði hjá Leikfélagi Reykjavíkur 1978-1979. Hún hóf störf hjá Þjóðleikhúsinu 1979 og var á verkefnasamningi til ársins 1982 er hún hlaut fastráðningu. Hún sat í Þjóðleikhúsráði frá 1988 til 1996 og í verkefnavalsnefnd Þjóðleikhússins frá 1988-2002. Samhliða störfum við Þjóðleikhúsið hefur hún unnið fyrir Alþýðuleikhúsið, Loftkastalann og Leikfélag Íslands.
Tinna hefur unnið sem aðstoðarleikstjóri og leikstjóri á sviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Hún hefur setið í stjórn FÍL og var formaður Leikarafélags Íslands um tíma. Þá hefur hún verið forseti Bandalags íslenskra listamanna frá árinu 1998.
Tinna hefur verið í forsvari fyrir norrænu listabandalögin frá árinu 2001 og varaforseti Evrópuráðs listamanna frá 2003. Hún situr í kvikmyndaráði og sem varamaður í barnamenningarsjóði og Útflutningsráði.
Tinna Gunnlaugsdóttir hlaut Fálkaorðuna fyrir störf að menningarmálum árið 2001.