Samgönguráðherra setur Öryggisviku sjómanna
Í tengslum við Alþjóðasiglingadaginn, 26. september n. k., er í annað sinn haldin Öryggisvika sjómanna dagana 24. september – 1. október 2004. Þema hennar er að þessu sinni ,,Forvarnir auka öryggi”.
Í ræðu samgönguráðherra kom fram að hann telur að öryggi sjófarenda verði alltaf best tryggt með góðri og stöðugri þjálfun sjómanna og samstilltu átaki stjórnvalda, útgerðar og sjómanna á sviði öryggismála. Hluti af þeirri stefnu væri undirritun þjónustusamnings á milli Slysavarnaskóla sjómanna og samgönguráðuneytisins sem var undiritaður að Gufuskálum í gær.
Á liðnum árum hefur mikil áhersla verið lögð á aukið öryggi sjófarenda. Má þar nefna lögleiðingu losunar- og sjósetningarbúnaðar gúmmíbjörgunarbáta, langtímaáætlun um öryggismál sjófarenda, endurskipulagning Rannsóknarnefndar sjóslysa og nú er öryggisvika sjómanna orðin hluti af verkefnaáætlun um öryggi sjófarenda. Ákveðið hefur verið að halda hana annað hvert ár í Reykjavík en hitt árið verði haldnir málfundir víðsvegar um land þar sem öryggismál sjómanna eru rædd og yfirfarin.