Valgerður Sverrisdóttir verður samstarfsráðherra
Fréttatilkynning frá Norðurlandaskrifstofu forsætisráðuneytis
Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun var Valgerði Sverrisdóttur iðnaðar- og viðskiptaráðherra falið að fara með norræn samstarfsmál af hálfu ríkisstjórnarinnar. Hún tekur við því embætti af Siv Friðleifsdóttur, sem var samstarfsráðherra frá 1999, samhliða störfum sínum sem umhverfisráðherra. Þar sem Íslendingar gegna formennsku í Norrænu ráðherranefndini á þessu ári kemur það í hlut Valgerðar að stjórna sínum fyrsta samstarfsráðherrafundi í Stokkhólmi í tengslum við Norðurlandaráðsþing dagana 1.-3. nóvember.
Valgerður Sverrisdóttir er f. 23. mars 1950. Hún hefur verið iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá árslokum 1999. Hún sat í Norðurlandaráði 1987-1990 og 1995-1999 og var formaður Íslandsdeildarinnar á árinu 1995. Þá sat hún í stjórn Norræna menningarsjóðsins á árunum 1991-1993 og 1995-1999, og var formaður stjórnar 1995.
Reykjavík 24. september 2004