Hoppa yfir valmynd
25. september 2004 Utanríkisráðuneytið

59. allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sem situr allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna í New York, í fjarveru Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, flutti í gær, föstudaginn 24. september 2004, ræðu í almennri umræðu á þinginu. Hann fjallaði m.a. um baráttuna gegn hryðjuverkum, umbætur á skipulagi Sameinuðu þjóðanna, einkum öryggisráðsins, og stöðu smærri ríkja í alþjóðakerfinu.

Fjármálaráðherra ítrekaði að þörf væri á umbótum á skipulagi Sameinuðu þjóðanna. Starfshópur valinkunnra einstaklinga, skipaður af Kofi Annan, til að koma með tillögur um helstu viðfangsefni Sameinuðu þjóðanna, allt frá öryggismálum til endurskipulagningar, myndi fljótlega skila af sér verki og þá yrði lag til að koma á nauðsynlegum breytingum. Í því sambandi vék ráðherra sérstaklega að mikilvægi endurbóta á öryggisráði Sameinuðu þjóðanna. Hann hvatti til þess að samkomulag næðist um fjölgun ríkja í öryggisráðinu og nefndi í því sambandi stuðning Íslands við að Brasilía, Indland, Japan og Þýskaland fái fast sæti í ráðinu, auk Afríkuríkis. Mikilvægt væri þó að í stækkuðu öryggisráði yrði ákvarðanataka ekki þyngri í vöfum.

Fjármálaráðherra vakti athygli á því að smærri ríki skipi meirihluta aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna. Rödd þeirra yrði að heyrast. Af eigin reynslu þekktu Íslendingar vel hversu mikilvægt væri fyrir smá efnahagskerfi að stuðla að fjölbreyttum atvinnuvegum og hversu viðkvæm þau væru fyrir utanaðkomandi áhrifum, jafnt efnahagssveiflum sem náttúruhamförum. Hann lýsti yfir samúð með fórnarlömbum fellibylja er gengið hafa yfir Karíbahaf og Bandaríkin. Hann lagði áherslu á þátttöku smærri ríkja í öryggisráðinu og að tekið yrði tillit til hagsmuna þeirra.

Ráðherra fagnaði nýlegu samkomulagi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um ramma fyrir framhald samningaviðræðna um frekara frjálsræði í viðskiptum, sem ætti að stuðla að minni fátækt í heiminum. Hann vék einnig að mikilvægi sjálfbærrar nýtingar auðlinda og sagði að haldið yrði áfram að með tilraunir á Íslandi við að nýta vetni sem eldsneyti.

Fjármálaráðherra fjallaði um málefni Afríku, ástandið í Írak, Afganistan og Miðausturlöndum. Hann fordæmdi hryðjuverk í ræðu sinni. Þau mætti aldrei réttlæta og uppræta yrði net hryðjuverkamenna. Í umfjöllun sinni um mannréttindi lagði hann áherslu á að baráttan gegn hryðjuverkum yrði ekki á kostnað mannréttinda.

Fimmtudaginn 22. september sl. sat Geir H. Haarde, fjármálaráðherra fund um framkvæmd innan Afríku á þeim markmiðum í þróunarmálum sem sett voru á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna árið 2000. Rakti hann sjónarmið Íslands í stuttu máli.

Í gær, föstudag, skrifaði fjármálaráðherra og utanríkisráðherra Gínea Bissau undir yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands. Ráðherra hefur ennfremur undanfarna daga átt tvíhliða fundi og viðræður við utanríkisráðherra karabísku ríkjanna Barbados, Jamaíka, Kúbu, Trínidad og Tóbagó, Antígva og Barbúda, einnig Gvæana, Níkaragva, Madagaskar, Austur-Tímor, Kasakstan, Srí Lanka, Kýpur, og nokkurra smærri ríkja í Kyrrahafi; Marshalleyja, Tonga, Papúa Nýju Gíneu, auk starfandi forsætisráðherra Túvalú og varaforseta Palá. Umræðuefni þessara funda hefur verið samstarf ríkjanna, möguleikar á frekari samvinnu og viðfangsefni svæðasamtaka smáeyjaþróunarríkja (SIDS). Jafnframt hefur ráðherrann kynnt framboð Íslands til öryggisráðsins 2009-2010 með það fyrir augum að afla stuðnings við framboðið. Tvíhliða fundir með utanríkisráðherrum Salómonseyja, Suður-Afríku, Vanúatú, Nepal og Míkrónesíu eru fyrirhugaðir á mánudag.

Ræða fjármálaráðherra (á ensku).

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta