Sömu laun fyrir sömu vinnu og jafn réttur til fæðingarorlofs – leiðir til jafnréttis
Hvernig getur samstarf Norðurlandanna og Eystrasaltsríkjanna stuðlað að jákvæðri þróun í jafnréttisátt? Þetta var meginþema fundar norrænna ráðherra og ráðherra Eystrasaltsríkja um jafnréttismál sem haldinn var í Reykjavík 24. september sl. í tilefni 30 ára samstarfs Norðurlandanna að jafnréttismálum.
Á fundinum kom meðal annars fram að 85% nýbakaðra íslenskra feðra og 95% feðra sem búa með fjölskyldum sínum hafi notfært sér réttinn til þriggja mánaða launaðs fæðingarorlofs. Að auka rétt feðra til fæðingarorlofs er nú einnig rætt víða í nágrannalöndunum. Í Danmörku hefur til dæmis verið stofnaður sameiginlegur sjóður verkalýðsfélaga og vinnuveitenda.
Jafnréttisráðherrarnir ræddu einnig leiðir til að auka launajöfnuð kynjanna. Í Finnlandi þéna konur að meðaltali 20% minna en karlar og samkvæmt nýrri sænskri skýrslu þéna konur þar í landi 92% af meðallaunum karla.
Ráðherrarnir samþykktu nýja jafnréttisáætlun til að styrkja samvinnu Norðurlanda og Eystrasaltsríkja í jafnréttismálum á árunum 2004-2006. Noregur lagði einnig fram tillögu um nýja samvinnuáætlun í baráttunni gegn mansali og vændi.
Menn voru almennt sammála um að þrátt fyrir að Norðurlöndin hafi starfað saman að jafnréttismálum í 30 ár með góðum árangri séu verkefnin enn næg.
Að loknum fundi ráðherranna var haldinn hátíðarfundur í Borgarleikhúsinu þar sem Árni Magnússon félagsmálaráðherra, Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti Íslands, og Tarja Halonen, forseti Finnlands, voru meðal mælenda.
30 ára norrænt samstarf í jafnréttismálum
Ávarp félagsmálaráðherra á hátíðarfundi vegna 30 ára norræns samstarfs í jafnréttismálum.
Norræna ráðherranefndin
Heimasíða Norrænu ráðherranefndarinnar um jafnréttismál.