Tvennar sameiningarkosningar
Tvennar sameiningarkosningar munu fara fram laugardaginn 20. nóvember nk. og er utankjörfundaratkvæðagreiðsla vegna þeirra þegar hafin.
1) Atkvæðagreiðsla um sameiningu fjögurra sveitarfélaga í Austur-Húnavatnssýslu
Samstarfsnefnd um sameiningu Bólstaðarhlíðarhrepps, Sveinsstaðahrepps, Svínavatnshrepps og Torfalækjarhrepps, í umdæmi sýslumannsins á Blönduósi, hefur ákveðið að íbúar þessara sveitarfélaga greiði atkvæði um sameiningu þeirra í eitt sveitarfélag.
2) Atkvæðagreiðsla um sameiningu fjögurra sveitarfélaga sunnan Skarðsheiðar
Samstarfsnefnd um sameiningu Hvalfjarðarstrandarhrepps, Innri-Akraneshrepps, Leirár- og Melahrepps og Skilmannahrepps, í umdæmi sýslumannsins í Borgarnesi, hefur ákveðið að atkvæðagreiðsla fari fram um sameiningu þessara sveitarfélaga í eitt sveitarfélag.
Almennt um framkvæmd kosningarinnar
Kosningarrétt eiga allir íbúar framangreindra sveitarfélaga sem náð hafa 18 ára aldri þegar kosningin fer fram og uppfylla skilyrði 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998. Þetta þýðir meðal annars að danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag, og aðrir erlendir ríkisborgarar sem hafa átt lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag, mega greiða atkvæði um tillögu sameiningarnefndar. Er þetta í samræmi við breytingu sem gerð var á fyrrgreindum lögum árið 2002.
Unnt er að greiða atkvæði utan kjörfundar hjá sýslumönnum um allt land og á kjörstöðum í viðkomandi sveitarfélögum á kjördag, 20. nóvember. Erlendis fer atkvæðagreiðsla fram á skrifstofu sendiráðs eða fastanefndar hjá alþjóðastofnunum, kjörræðismönnum eða á öðrum stöðum samkvæmt ákvörðun utanríkisráðuneytis. Atkvæðagreiðsla utan kjörfundar fer þannig fram að þeir kjósendur sem eru hlynntir tillögu samstarfsnefndar um sameiningu viðkomandi sveitarfélaga skrifa „já“ á kjörseðilinn en þeir sem eru mótfallnir sameiningu skrifa „nei“.
Skilyrði er að kjósandi eigi lögheimili í sveitarfélaginu samkvæmt íbúaskrá þjóðskrár þremur vikum fyrir kjördag. Viðkomandi sveitarstjórnir auglýsa nánar staðsetningu kjörstaða og opnunartíma þeirra, svo og hvar talning atkvæða fer fram í hverju sveitarfélagi.
Sveitarfélög á Íslandi eru nú 103 talsins en þau voru 104 í upphafi árs og fækkar um tvö hinn 1. nóvember nk. þegar sameining Austur-Héraðs, Norður-Héraðs og Fellahrepps tekur gildi. Ef báðar sameiningartillögurnar sem kosið verður um 20. nóvember nk. hljóta samþykki verða sveitarfélögin 95 og hefur þeim þá fækkað um níu á einu ári.