Hoppa yfir valmynd
29. september 2004 Utanríkisráðuneytið

Stofnun stjórnmálasambands við þrjú ríki

Geir H. Haarde, fjármálaráðherra, sem hefur í fjarveru Davíðs Oddssonar, utanríkisráðherra, setið upphaf 59. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna í New York, hefur á síðustu dögum undirritað yfirlýsingar um stofnun stjórnmálasamands fyrir Íslands hönd við þrjú ríki: Gíneu-Bissá, Míkrónesíu og Vanúatú.

Það voru utanríkisráðherrar þessara þriggja ríkja, sem undirrituðu samkomulagið í viðurvist sendinefnda landanna á allsherjarþinginu.

Öll þessi ríki reiða sig á fiskveiðar sem mikilvæga atvinnugrein og eiga á alþjóðavettvangi samleið með Íslandi varðandi gæslu hagsmuna í málefnum hafsins.

Gínea-Bissá

Frá undirritun stjórnmálasambands við Gíneu-BissáFöstudaginn 24. september sl. var stofnað til stjórnmálasambands við Afríkuríkið Gíneu-Bissá, á þjóðhátíðardegi þess lands, sama dag og söfnun hófst á Íslandi á vegum Íslandsdeildar UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, til styrktar skólabörnum þar í landi. Það var Soares Sambu, utanríkisráðherra Gíneu-Bissá, sem undirritaði fyrir hönd sinna stjórnvalda.

Gínea-Bissá liggur á vesturströnd Afríku og um það bil þriðjungur af stærð Íslands. Íbúar landsins eru 1,4 milljónir talsins. Landið liggur milli Senegal og Gíneu og var portúgölsk nýlenda uns það hlaut sjálfstæði árið 1974.

Gínea-Bissá er eitt af tíu snauðustu ríkjum heims. Landsmenn lifa að mestu af kotbúskap og fiskveiðum. Meðaltekjur á mann eru jafnvirði 200 íslenskra króna á dag.

Stjórnarfar hefur lengi verið óstöðugt í landinu og borgarastyrjöld ríkt og efnahagsþróun verið ein sú lakasta af öllum aðildarríkjum Sameinuðu þjóðanna. Hlutfall barnadauða er hátt, ólæsi er almennt, þjóðartekjur lágar og meðalævi skömm, innan við 47 ár.

Helstu auðlindir landsins eru nokkuð auðug fiskimið, en ofveiði stefnir þeirri auðlind í hættu. Vonir eru bundnar við að olía finnist á hafsbotni.

Á myndinni eru Geir H. Haarde og Soares Sambu, utanríkisráðherra Gíneu-Bissá, að lokinni undirritun. Að baki þeim standa fastafulltrúar ríkjanna hjá SÞ, sendiherrarnir Hjálmar W. Hannesson og Alfredo Lopes Cabral.

Míkrónesía

Frá undirritun stjórnmálasambands við MíkrónesíuMánudaginn 27. september sl. undirrituðu Geir H. Haarde og Sebastian L. Anefal, utanríkisráðherra Míkrónesíu, yfirlýsingu um stofnun stjórnmálasambands milli ríkjanna.

Míkrónesía er eyjaklasi (Karólínueyjar) í norðanverðu Kyrrahafi, aðeins 700 ferkílómetrar að stærð og íbúar liðlega 100 þúsund. Míkrónesar tilheyra níu mismunandi þjóðflokkum. Þeir eru kristinnar trúar, um það bil helmingur kaþólskir, aðrir af mótmælendasið.

Míkrónesía var gæsluríki Sameinuðu þjóðanna frá stofnun þeirra til ársins 1979, er landið hlaut sjálfstæði. Þar ríkir lýðræði og stöðugleiki, ólæsi nær óþekkt, meðalæfi nokkuð löng, en efnahagslíf byggir á óstöðugum grunni. Flestir lifa af landbúnaði eða fiskveiðum, en landið er snautt af öðrum hráefnum. Efnahagur þess er verulega háður aðstoð, einkum frá Bandaríkjunum.

Á myndinni eru Sebastian L. Anefal, utanríkisráðherra Míkrónesíu, og Geir H. Haarde. Að baki þeim standa Masao Nakayama og Hjálmar W. Hannesson, sendiherrar og fastafulltrúar ríkjanna hjá Sameinuðu þjóðunum.

Vanúatú

Frá undirritun stjórnmálasambands við VanúatúMánudaginn 27. september sl. var svo undirritað samkomulag um stofun stjórnmálasambands við annað eyríki, Vanúatu, í suður Kyrrahafi. Barak Sope T. Maautamate, utanríkisráðherra, undirritaði fyrir þess hönd.

Vanúatú hlaut sjálfstæði og varð lýðveldi árið 1980. Það samanstendur af 80 eyjum, sem áður hétu Nýju Hebrídeyjar, og tilheyrðu áður Bretlandi og Frakklandi. Búið er á 65 þessara eyja. Íbúafjöldi er liðlega 200 þúsund.

Tveir þriðju íbúa Vanúatú lifa af kotbúskap en fiskveiðar, ferðaþjónusta og erlend bankaþjónusta eru vaxandi gjaldeyrislind.

Á myndinni eru Geir H. Haarde og Barak Sope T. Maautamate, utanríkisráðherra Vanúatú.  Að baki þeim standa Hjálmar W. Hannesson, sendiherra og Evelyn Adams, forstöðumaður fastanefndar Vanúatú hjá Sameinuðu þjóðunum.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta