Hoppa yfir valmynd
30. september 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Forstöðumaður rannsóknastöðvarinnar við Mývatn skipaður.

Umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, skipaði í gær dr. Árna Einarsson líffræðing til þess að gegna stöðu forstöðumanns Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn frá 1. október til fimm ára en Árni hefur starfað sem forstöðumaður Náttúrurannsóknastöðvarinnar frá árinu 1996. Umsækjendur um stöðuna auk Árna voru Ásta Þorleifsdóttir jarðfræðingur og dr. Ragnhildur Sigurðardóttir vistkerfavistfræðingur.

Þann 1. október nk. taka gildi ný lög nr. 97/2004 um verndun Mývatns og Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu og um leið falla úr gildi lög frá árinu 1974 um svæðið. Samkvæmt nýju lögunum njóta Laxá, Mývatn og nálæg votlendissvæði sérstakrar verndar en gert er ráð fyrir að önnur svæði í Skútustaðahreppi sem hafa hátt verndargildi verði friðlýst á grundvelli náttúruverndarlaga. Í lögunum eru einnig nýmæli um vernd vatnasviðs Laxár og Mývatns og um gerð verndaráætlunar fyrir Laxá og Skútustaðahrepp.

Önnur nýmæli í lögunum eru að stjórn Náttúrurannsóknarstöðvarinnar er lögð niður og stjórn stofnunarinnar alfarið færð í hendur forstöðumanns beint undir yfirstjórn ráðherra. Samkvæmt lögunum skal umhverfisráðherra skipa sérstakt fagráð forstöðumanni til ráðgjafar um vísindastarf stofnunarinnar, rannsóknarstefnu og fagleg tengsl við aðrar stofnanir sem stunda rannsóknir á vatnasviði Mývatns og Laxár og mun það verða gert fljótlega.

Fréttatilkynning nr. 39/2004
Umhverfisráðuneytið



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta