Hoppa yfir valmynd
30. september 2004 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðstefna LÍSU samtakanna 30. september

Ávarp

Sigríðar Önnu Þórðardóttur, umhverfisráðherra

Kæru ráðstefnugestir,

Í stássstofunni hjá ömmu minni á Siglufirði hékk stórt kort af Íslandi, með trékefli að ofan og neðan. Kort þetta var sjálfsagður hluti af stássi stofunnar, breiddi úr sér í allri sinni dýrð og vakti forvitni og spurningar hjá stelpuhnokka sem bjó í sama húsi og amma. Efst á kortinu var Siglufjörður merktur með stórum rauðum hring. Þar var nafli alheimsins, þaðan og þangað lágu allra leiðir, því að í þann tíma gisti Siglufjörð fólk hvaðanæva úr veröldinni. Kortið góða var óþrjótandi uppspretta spurninga og þegar stelpan prílaði upp á stól til að sjá betur til ævintýranna var gott að eiga ömmu til að svara og fræða. Þessi góða minning um fyrstu kynni mín af landakorti kom í hugann þegar ég hugsaði til þessa fundar.

Siglufjörður en enn á sínum stað, margt hefur breyst, atvinnulífið og mannlífið þar er ekki eins litríkt og forðum. Landið er líka á sínum stað, en upplýsingar landakortsins sem í dag gæti prýtt veggi í stássstofum eru miklu ítarlegri, fjölbreyttari og nákvæmari og eru vitnisburður um þær gríðarlegu tæknilegu framfarir sem orðið hafa í öflun og meðferð landupplýsinga og kortagerð.

Á þessu ári eru tíu ár liðin frá stofnun samtaka um landupplýsingar á Íslandi fyrir alla, LÍSA. Það er einkar vel til fundið að efna til ráðstefnu af því tagi sem hér fer fram í dag af því tilefni og erindin sem hér verða haldin, sem og sýningin, gefa góða mynd af margbreytilegri notkun korta og annarra landupplýsinga.

Umhverfisráðuneytið kom á sínum tíma að stofnun LÍSU-samtakanna, þar sem þau voru mynduð í kjölfar tilraunaverkefnis um "gerð staðfræðikorta, gróðurkorta og um landfræðilegt upplýsingakerfi," eins og segir í þingsályktun sem Alþingi samþykkti árið 13. mars 1991. Verkefni þetta, sem unnið var á vegum ráðuneytisins, var all viðamikið og að því komu margar stofnanir ríkisins, fyrirtæki og félög. Árangur af þessari samvinnu hefur verið margvíslegur og má þar til dæmis nefna endurmælingu á landshnitakerfi landsins síðastliðið sumar með sameinuðu átaki um 35 stofnana og sveitarfélaga undir stjórn Landmælinga Íslands.

Einn undirhópur tilraunaverkefnisins fékkst við það sem þá var nefnt "landfræðilegt upplýsingakerfi" og kom þar skýrt fram hversu mikilvægt væri að stilla saman strengi hinna fjölmörgu stofnana og hagsmunaaðila til að greiða fyrir framgangi nýrrar tækni. Upp úr þessum aðstæðum varð LÍSA til og fáum er betur ljóst en ykkur, hversu umfangsmikil þróun hefur orðið á þessu sviði undangengin tíu ár og er þá sama hvar borið er niður. Komið hefur verið upp viðurkenndu landshnitakerfi, kerfisbundin söfnun upplýsinga á stafrænu formi hefur átt sér stað, stafrænn kortagrunnur í mælikvarða 1:50.000 er nú öllum aðgengilegur, lokið er við litloftmyndatöku af nær öllu landinu og í undirbúningi er útboð á nákvæmu hæðarlíkani af landinu öllu. Ekki síst má svo nefna bætt viðmót hugbúnaðar og hraða í gagnaflutning sem eykur mjög möguleika á notkun landupplýsinga.

Hlutur LÍSU-samtakanna í þróun landupplýsinga hér á landi er ótvíræður. Raunar var lagt af stað áður en stuðlað hafði verið að því að ýmsar nauðsynlegar forsendur skilvirkra nota landupplýsinga væru til staðar og því um margt óljóst hvert stefndi. Í upphafi var þess vegna gert ráð fyrir að endurskoðun færi fljótlega fram á grunni starfseminnar. Umhverfisráðuneytið skipaði nefnd í þessum tilgangi sem skilaði áliti sem kynnt var á aðalfundi LÍSU í febrúar 1997. Meginniðurstöður voru að samtökin skilgreindu skýrt hlutverk sitt sem hagsmunasamtök framleiðenda og notenda landupplýsinga og seljenda búnaðar fyrir landupplýsingatækni. Þetta má lesa í upphafsorðum á heimasíðu samtakanna, þar sem segir "Lísa er samstarfsvettvangur ólíkra hagsmunaaðila um að auka aðgengi að landupplýsingum."

Auk þess lagði nefndin til að umhverfisráðherra hefði frumkvæði að myndun yfirstjórnar landupplýsingamála sem tæki með einhverjum hætti til allra ráðuneyta og heildarsamtaka sveitarfélaga. Var þar leitað fyrirmynda frá nágrannalöndum þar sem sérstaklega er skilgreint hlutverk stjórnsýslu á samþættingu í umhverfi stafrænnar vinnslu landupplýsinga. Slíkur vettvangur var ekki settur á laggirnar þá, en árið 2001 skipaði umhverfisráðherra, til þriggja ára, samráðsnefnd um þróun landupplýsingakerfa með aðild nokkurra ráðuneyta, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborgar. Þessi nefnd skilaði tillögum um aðgerðir og áherslur stjórnvalda til umhverfisráðherra. Þar er meðal annars lögð áhersla á mörkun gagnastefnu, en eins og mörgum hér er kunnugt starfaði nefnd á vegum fjármálaráðuneytis sem fjallaði um verðlagningu opinberra upplýsinga. Meginsjónarmið voru þau að opinberar upplýsingar verði skilgreindar sem eign almennings og óheimilt að krefjast gjalds umfram kostnað við að framreiða, afrita eða dreifa upplýsingum.

Á vegum forsætisráðuneytis er nú í undirbúningi lagafrumvarp um verðlagningu og aðgengi að opinberum upplýsingum. Þessi stefnumörkun mun hafa nokkur áhrif á fjárhag opinberra stofnana sem sýslað hafa með þessi gögn og samráðsnefndin um þróun landupplýsingakerfa benti á að skilgreina þurfi hvað landupplýsingagögn skuli vera aðgengileg m.a. til endurnota í viðskiptalegum tilgangi. Þá er ekki síður nauðsynlegt að fjalla um hvernig koma megi í veg fyrir hugsanleg neikvæð áhrif nýrrar gagnastefnu um landupplýsingar á starfsemi einkageira og hvort þessi stefna kalli á breytingar í samkeppnisrekstri opinberra stofnana. Ég hef m.a. af þessum sökum ákveðið að skipa nefnd, sem fær það verkefni að endurskoða lög um Landmælingar Íslands og einkanlega að skilgreina hvert skuli vera hlutverk hins opinbera í landmælingum og kortagerð í framtíðinni

Landupplýsingar eru viðamikill þáttur upplýsingasamfélagsins og í þeim efnum samþykkti ríkisstjórnin síðastliðið vor áform til næstu ára: Auðlind í allra þágu - Stefna ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið 2004 - 2007. Þar er umhverfismálum gert hátt undir höfði og meðal annars lögð áhersla á samþættan gagnagrunn um náttúru landsins og hagnýt afnot staðbindanlegra upplýsinga í tengslum við byggðaþróun og önnur þróunarverkefni sem styðja meginmarkmið Staðardagskrár 21 um sjálfbært samfélag.

Tillögur samráðsnefndar um þróun landupplýsingakerfa eru til umfjöllunar í ráðuneytinu en mér hefur ekki enn gefist ráðrúm til frekari úrvinnslu þeirra. Flöskuhálsar málaflokksins munu ekki vera tæknilegs eðlis, eins og ef til vill var svo áberandi í upphafi, né heldur skortur á landupplýsingum. Nú mun frekar vera þörf á að samræma skilgreiningar, verklag og gagnauppbyggingu í tengslum við landupplýsingar. Þetta er nauðsynlegur þáttur til að unnt sé að tengja saman gagnasöfn og koma í veg fyrir margskráningu og geri ég ráð fyrir að við fáum að heyra meira um það á þessari ráðstefnu.

Ágætu ráðstefnugestir, um leið og ég óska LÍSU-samtökunum velfarnaðar á þessum tímamótum vona ég að ráðstefnan verði þátttakendum til fróðleiks og ánægjuauka.

Stelpuhnokkinn sem ég nefndi í upphafi hafði mikið gagn og gaman af landakorti ömmunnar. Framtíðin á þessu sviði er björt og gefandi. Þar er ykkar hlutur stór.

Takk fyrir.



Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum