Fréttapistill vikunnar 25. sept. - 1. október
Gigtarlyfið Vioxx tekið af markaði
Fyrirtækið Merck, Sharp & Dohme, Inc. ákvað í gær (30. sept.) að taka af markaði lyfið Vioxx í öllum löndum þar sem lyfið hefur verið selt. Er þetta gert vegna aukaverkana lyfsins frá hjarta- og æðakerfi í formi aukinnar hættu á blóðsegamyndun. Vioxx er í hópi nýlegra gigtarlyfja sem farið var að nota hér á landi fyrir nokkrum árum og falla í flokk svokallaðra cyclo-oxygenasa II hamlandi lyfja (Cox II lyfja), en gömlu lyfin voru svokölluð Cox I lyf. Helsta ástæðan fyrir notkun hinna nýju lyfja, sem eru margfalt dýrari en hin gömlu, var sú að þau voru talin hafa minni aukaverkanir frá meltingarfærum. Fljótlega vaknaði grunur um að nýju lyfjunum fylgdu fyrrnefndar aukaverkanir. Sá grunur hefur nú verið staðfestur varðandi lyfið Vioxx með rannsókn sem lyfjafyrirtækið sjálft stóð fyrir og því ákvað það að taka lyfið af markaði. Viox var mest selda lyfið í hópi nýju gigtarlyfjanna. Hér á landi var markaðshlutdeild þess nær 50% og seldist lyfið á síðasta ári fyrir um 80 milljónir íslenskra króna. Önnur Cox II lyf sem eru seld hér á landi eru Celebra, Bextra og Arcoxia. Tekið skal fram að ofangreindar rannsóknir eiga eingöngu við um Vioxx, en gefa þó tilefni til aukinnar varúðar varðandi hin lyfin. Öll þessi lyf voru tekin út úr greiðsluþáttöku Tryggingarstofnunar nýlega, nema að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, en þau skilyrði voru sett fram af landlæknisembættinu.Nánar má lesa um þetta á heimasíðum Lyfjastofnunar og landlæknisembættisins þar sem einnig eru birt skilyrði landlæknisembættisins. Tekið skal fram að engin bráðahætta er af töku lyfsins en fólki, sem hefur tekið Vioxx í lengri tíma, er ráðlagt að hafa samband við heimilislækni sinn með tilliti til þessarar fréttar.
Reykingar íslenskra kvenna hafa dregist saman um 10% á 13 árum
Fjórðungur íslenskra karlmanna reykti daglega árið 2003 á móti 19% íslenskra kvenna samkvæmt samnorrænni rannsókn á reykingum Norðurlandabúa. Árið 2003 reyktu 18% sænskra kvenna, 24% danskra kvenna og 25% kvenna í Noregi. Í öllum framantöldum löndum hafa reykingar kvenna dregist allmikið saman á undanförnum árum. Í þessum efnum hafa finnskar konur sérstöðu því reykingar þeirra hafa aukist. Árið 1980 reyktu 17% finnskra kvenna en 19% í fyrra. Karlar á Norðurlöndunum reykja alls staðar meira en konur nema í Svíþjóð. Þar reykja 17% karlmanna og 18% kvenna miðað við upplýsingar ársins 2003. Svíþjóð er fyrsta iðnvædda landið sem hefur náð því markmiði Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar að innan við 20% af hvoru kyni reyki. Að einhverju leyti kann þetta að skýrast af notkun Svía á munntóbaki (snus) því nú eru fleiri sænskir karlar sem nota það en þeir sem reykja. Síðast þegar þetta var skoðað kom í ljós að 20% sænskra karla notuðu ,,snus” og af þeim hópi hafði rúmur helmingur reykt áður.
Stjórn Sóttvarnarstofnunar Evrópu fundar í fyrsta sinn
Fyrsti stjórnarfundur Sóttvarnastofnunar Evrópu (European Centre for Disease Prevention and Control – ECDC) var haldinn í Stokkhólmi í vikunni. Sóttvarnarlæknir segir frá þessu á heimasíðu landlæknisembættisins. Heilbrigðisráðherra framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins flutti ræðu í tilefni fundarins og sagði þetta fyrsta skrefið í áttina að uppbyggingu þýðingarmikillar heilbrigðisþjónustu fyrir Evrópubúa framtíðarinnar. ,, Nýir og hugsanlega banvænir sjúkdómar greinast á hverju ári. Þegar HABL-faraldurinn geisaði í fyrra sáum við hversu hratt faraldur getur breiðst út um heiminn. Þegar við stöndum frammi fyrir ógn af þessum toga í Evrópu þurfa aðildarríkin á sérfræðiþekkingu að halda og það skjótt.“ Í desember í fyrra var ákveðið að Sóttvarnarstofnun Evrópusambandsins skyldi vera í Svíþjóð. Gert er ráð fyrir að starfsemi stofnunarinnar hefjist í maí á næsta ári og að þegar fullri starfsemi verði náð muni um 100 manns starfa við hana.
Hagfræðistofnun falið að rannsaka fjölgun öryrkja
Hagfræðistofnun hefur verið falið að skoða hverjar geti verið ástæður mikillar fjölgunar öryrkja og endurhæfingarlífeyrisþega á undanförnum misserum. Fjölgunin nemur um 40% á fimm ára tímabili.
Fréttatilkynning ráðuneytisins...
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið
1. október 2004